Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

20 starfsmönnum Varnarliðsins sagt upp störfum
Þriðjudagur 20. apríl 2004 kl. 16:34

20 starfsmönnum Varnarliðsins sagt upp störfum

Allt að 20 starfsmönnum Varnarliðsins verður sagt upp störfum næstu mánaðarmót. Í tilkynningu frá Varnarliðinu segir að uppsagnirnar hafi verið kynntar fulltrúum stéttarfélaga í morgun. Segir í tilkynningunni að nauðsynlegt sé að grípa til þessara ráðstafana vegna hagræðingar í rekstri varnarstöðvarinnar.
Í tilkynningunni segir að uppsagnarfrestur umræddra starfsmanna sé frá einum og upp í sex mánuði og verður þeim veitt aðstoð við aðlögun og atvinnuleit.

Tilkynning Varnarliðsins:

Flotastöð Varnarliðsins hóf í morgun að kynna fulltrúum stéttarfélaga frekari ráðstafanir sem nauðsynlegt er að grípa til vegna hagræðingar í rekstri varnarstöðvarinnar.

Um er að ræða uppsagnir á annan tug starfsmanna um næstu mánaðamót sökum minnkandi eftirspurnar í þjónustustofnunum flotastöðvarinnar. Búast má frekari hagræðingu í starfsmannafjölda á næstu mánuðum eftir því sem fjárveitingar á næsta fjárhagsári, sem hefst 1. október n.k., kunna að gefa tilefni til.

Uppsagnarfrestur umræddra starfsmanna er frá einum og upp í sex mánuði og verður þeim veitt aðstoð við aðlögun og atvinnuleit. Þeir sem leita vilja annarra starfa hjá Varnarliðinu mun hljóta viðeigandi aðstoð og ráðgjöf. Þá býðst umræddum starfsmönnum að leita ráðgjafar vinnusálfræðings og aðstoðar ráðningarþjónustu í leit að starfi á almennum vinnumarkaði sér að kostnaðarlausu. Til að auðvelda leit að nýju starfi býðst þeim að fá leyfi án launaskerðingar í allt að einum starfsdegi á hverju tveggja vikna launatímabili. Þá verða starfsmenn undanþegnir mætingarskyldu síðasta mánuðinn miðað við þriggja mánaða uppsagnarfrest og hlutfallslega miðað við styttri uppsagnarfrest. Er þeim þá frjálst að ráða sig í vinnu annarsstaðar án launaskerðingar.

Umræddar ráðstafanir hafa hvorki áhrif á skyldur flotastöðvarinnar í tengslum við rekstur Keflavíkurflugvallar né þjónustu við varnarliðið. Þá snerta þær ekki varnarsamning Íslands og Bandaríkjanna né umræður um framtíð Varnarliðsins eða endurskoðun á viðbúnaði Bandaríkjahers á heimsvísu sem nú er til skoðunar.

Ráðstafanir þessar hafa verið kynntar íslenskum stjórnvöldum.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024