Fréttir

  • 20% nemenda þyrftu að útskrifast úr iðnnámi
  • 20% nemenda þyrftu að útskrifast úr iðnnámi
    Ólafur Magnússon hjá FIT.
Laugardagur 18. apríl 2015 kl. 07:00

20% nemenda þyrftu að útskrifast úr iðnnámi

Fulltrúar skóla og atvinnulífs sammála um að tala þurfi upp iðngreinar.

„Í raun þyrftu 20% nemenda í framhaldsskólum að útskrifast úr iðnnámi til þess að anna eftirspurn markaðarins. Viðhorfið til greinanna þyrfti einnig að breytast á heimilum, vinnustöðum og í skólum. Iðnnám er t.d. mjög góður undirbúningur fyrir framhaldsnám í háskóla,“ segir Ólaf­ur S. Magnús­son, þjón­ustu­full­trúi FIT, stétt­ar- og fag­fé­lags iðnaðarmanna og fólks í tækni­grein­um, í Reykja­nes­bæ, í samtali við Víkurfréttir. Undir þetta tekur skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurnesja. 

Fólk eftirsótt á þessum vettvangi

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Nemendur í iðnnámi ná sér í starfsmenntun sem nýtist lífstíðar og segir Ólafur það sannarlega gilda um bæði kynin. „Þetta eru ekkert endilega karlastörf. Sem betur fer horfa stelpur til þess að þetta eigi jafnvel vel við þær, t.d. í stóriðjunni eins og álverum, kísilverum og gagnaverum, þar sem skapast hefur ný tegund iðngreinar. Þetta eru bara fín og vel launuð störf.“ Að mati Ólafs getur þessi vöntun á fólki í iðngreinar valdið ákveðinni stöðnun eins og var fyrir hrun þegar neikvæð umræða kom upp og iðngreinarnar voru talaðar niður. „Mikið var af erlendu vinnuafli og störfin og aðbúnaðurinn þóttu ekki aðlaðandi eða ákjósanleg. Í dag er fólk eftirsótt á þessum vettvangi og lágir taxtar endurspegli ekki meðaltalslaunin. Almenni markaðurinn greiðir betri laun en ríki og sveitarfélög.“

Grunnnám í iðngreinum í grunnskólana

Kristján Ásmundsson, skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurnesja, tekur undir orð Ólafs og segir mikið kappsmál fyrir skólann að iðnnámið blómstri. Ekki veiti af þegar það vanti fólk. „Við höfum farið í alla grunnskólana og kynnt okkar námsframboð, eins og jafnan áður, en það þarf meira til. Ég held að það þurfi að koma með „grunnnám“ í iðngreinum inn í grunnskólana og kynna það á þann hátt fyrir nemendum og kveikja þannig áhuga fyrir því.“ Nemandi sem fari í iðn- eða tækninám í FS sé ekki að fara inn á einhverja blindgötu í námi. „Hann getur lokið stúdentsprófi ef hann vill samhliða iðnnáminu af t.d. fjölgreinabrautinni nýju og þá þarf hann ekki að fara í frumgreinadeild í háskóla ef hann vill halda áfram í tækni- eða verkfræðinám,“ segir Kristján.  Starfakynning verður í FS í næstu viku og standa vonir um að hún geti ýtt undir áhuga nemenda fyrir iðn- og verknámi.