Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

20-30 milljarðar liggja í Helguvík
Þriðjudagur 29. mars 2011 kl. 16:08

20-30 milljarðar liggja í Helguvík

Búið er að fjárfesta í álveri í Helguvík fyrir 20-30 milljarða nú þegar. Kristján L. Möller, formaður iðnaðarnefndar, sagði á Alþingi í dag að ef framkvæmdir við álverið kæmust af stað gætu um 2.000 manns verið komnir þar með vinnu 4-5 mánuðum eftir að búið er að skrifa undir orkusamninga. Frá þessu er greint á mbl.is

Kristján sagði að það munaði um þau störf sem sköpuðust í Helguvík þegar 15.000 manns væru án vinnu hér á landi, en vegna þessa mikla atvinnuleysis þyrftum við að greiða 30 milljarða í atvinnuleysisvætur á ári.

Fram kom í máli Björgvins G. Sigurðssonar alþingismanns í umræðum á Alþingi að hann gerði sér vonir um að á næstu dögum næðist samkomulag milli HS-orku og Norðuráls um ágreining fyrirtækjanna um orkusölu, en ágreiningnum hefur verið vísað til gerðardóms í Svíþjóð. Björgvin sagðist vonast eftir að málið yrði tekið úr þeim farvegi.
Björgvin sagði að alvarlegar fréttir bærust af stöðu Orkuveitu Reykjavíkur og möguleikum fyrirtækisins til að standa við skuldbindingar sínar gagnvart Norðuráli vegna álvers í Helguvík. Hann hvatti til þess að Landsvirkjun kæmi að verkefninu.

Kristján sagði í umræðunum að fimm fyrirtæki tæku þátt í að berjast um orku frá Þeistareykjum. Hann sagðist bjartsýnn á að jákvæðar fréttir ættu eftir að berast á næstu dögum af orkunýtingu á svæðinu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Fréttin á mbl.is