17% íbúa á Suðurnesjum í alvarlegum vanskilum
Í skýrslu frá Creditinfo kemur fram að í apríl 2013 voru 2602 einstaklingar sem áttu í alvarlegum vanskilum eða 17% íbúa á Suðurnesjum yfir 18 ára aldri. Næst á eftir Suðurnesjum kom Suðurland með 10,7% og höfuðborgarsvæðið með 9,7%. Þetta kemur fram í nýrri áfangaskýrslu Suðurnesjavaktarinnar sem kynnt var í vikunni. Að sögn Ásdísar Leifsdóttur sem starfað hefur hjá Umboðsmanni skuldara á Suðurnesjum eru margir sem eiga mjög erfitt.
„Það hefur ekki dregið úr aðsókn til okkar og ég get ekki sagt að ástandið sé bjart, að minnsta kosti ekki frá mínum bæjardyrum séð,“ segir Ásdís í samtali við skýrsluhöfunda. „Það ríkir mikil reiði yfir þessari stöðu en fólk er að vonast til þess að ný ríkisstjórn muni láta til sín taka.“
Ásdís segir að húsnæðismálin séu sérstaklega slæm á svæðinu, mikil eftirspurn sé eftir leiguhúsnæði og að löng bið sé eftir félagslegu húsnæði að sögn þeirra sem til hennar leita.
Umboðsmaður skuldara hefur verið starfandi á svæðinu síðastliðin 3 ár en í kjölfar niðurskurðar á þessu ári hefur dregið úr þjónustu til íbúa á svæðinu með þeim hætti að ekki var ráðið í stöðu starfsmanns sem lét af störfum um mitt ár. Þá hefur opnunartími verið styttur en starfsmaður er nú með viðveru þrjá daga í viku í stað fimm. Telst það skjóta skökku við að dregið sé úr nærþjónustunni á því svæði þar sem vandinn er einna mestur.