17 hælisleitendur í umsjá félagsþjónustunnar í Reykjanesbæ
Fjölskyldu- og félagsþjónusta Reykjanesbæjar tók á móti 65 útlendingum í hælisleit á síðasta ári, 46 körlum, 13 konum og 6 börnum. Voru þessir einstaklingar frá ýmsum þjóðlöndum. Dvalartími þeirra er mjög misjafn, eða allt frá sólarhring upp í eitt og hálft ár. Um þessar mundir eru 17 hælisleitendur í umsjá FFR.
Ástæðan fyrir veru flóttafólksins hér er sú að Reykjanesbær og Útlendingastofnun gerðu með sér samning um að Fjölskyldu- og félagsþjónusta Reykjanesbæjar (FFR) færi með umönnun við hælisleitendur á Íslandi á meðan mál þeirra eru til afgreiðslu hjá Íslenskum stjórnvöldum. Vegna þessa er FFR með samning við gistiheimili í Reykjanesbæ um fæði og húsnæði fyrir þá einstaklinga sem hér leita hælis.
Meðaldur þeirra sem leituðu hér hælis á síðasta ári var 30 ár en börnin voru á aldrinum 2ja til 13 ára. Einn barn fór í grunnskóla og annað á leikskóla. Eins og áður segir getur dvalartími fólksins verið æði misjafn en fimm aðilar sem komu til landsins á árinu 2004 voru enn í umsjá FFR við árslok 2005. Einn þessara einstaklinga er enn á landinu, en hann áfrýjaði úrskurði Útlendingastofnunar og biður eftir niðurstöðu í sínum málum. Á þessu ári hafa 14 einstaklingar sótt um hæli hér á landi, samkvæmt upplýsingum frá FFR.
Aðeins einn einstaklingur hefur fengið hér hæli sem pólitískur flóttamaður, þó fleiri hafi sótt um á þeim forsendum en sjaldnast uppfyllir fólk þær forsendur sem verða að liggja til grundvalllar. Nokkrir hafa hins vegar fengið hér hæli af mannúðarástæðum.
Mynd: Þessi fjölskylda frá Rússlandi hefur dvalið hér um hríð eftir að hún leitaði hælis. Hún bíður nú eftir úrlausn sinna mála
VF-mynd:Ellert Grétarsson