Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

17 ára með falsað greiðslukort í Keflavík
Þriðjudagur 19. janúar 2010 kl. 17:08

17 ára með falsað greiðslukort í Keflavík

Lögreglan á Suðurnesjum hefur nú til rannsóknar ætlað brot á almennum hegningarlögum er varðar fölsun á greiðslukorti/skjali og notkun á því í þeim tilgangi að villa á sér heimild varðandi aldur til að komast inn á skemmtistað þar sem aldurstakmark er 18 ára.


Hingað til hafa veitingamenn getað treyst upplýsingum á greiðslukortum þar sem flest þeirra hafa að geyma nafn, kennitölu og mynd af viðkomandi og þannig getað gengið úr skugga um aldur gesta.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Á eftirlitsferð lögreglu nú um síðustu helgi urðu lögreglumenn varir við 17 ára stúlku þar sem hún var inni á skemmtistað þar sem aldurstakmark er 18 ára. Við upplýsingatöku kom í ljós að stúlkan hafði í fórum sínum greiðslukort á hennar nafni sem var búið að falsa.


Það er alvarlegur hlutur að falsa greiðslukort/skjal og nota það. Viðurlög geta varðað fangelsi allt að 8 árum.


Annað mál kom einnig upp um helgina þar sem dyraverðir á einum skemmtistaðnum kölluðu til lögreglu eftir að 17 ára piltur framvísaði fölsuðu greiðslukorti til að sanna deili á sér. Þetta er ein birtingarmyndin enn af misnotkun greiðslukorta/skjala en á síðasta ári bar talsvert á því að ungmenni undir aldri voru að misnota greiðslukort/skjal annars eldri manns með því að framvísa því til að komast inn á skemmtistaði.


Í samtali lögreglunnar við veitingamenn hafa verið ræddar leiðir til að sporna við þessu. Eitt er upplýsingagjöf til ungmenna um alvarleika þess að nota falsað greiðslukort/skjal eða nota greiðslukort/skjal annars manns til að villa á sér heimild. Hitt er það að greiðslukort er í raun ekki skilríki.


Eins og staðan er núna er nærtækast að veitingamenn krefjist þess að gestir sanni aldur sinn með því að þeir framvísa ökuskírteini eða vegabréfi.