167 nemendur brautskráðir frá Keili
Eitthundrað sextíu og sjö nemendur voru brautskráðir frá Keili, miðstöð vísinda fræða og atvinnulífs við hátíðlega athöfn í Andrews teather laugardaginn 6. júní sl.
Af Háskólabrú útskrifuðust 106 nemendur, þar af 69 af félagsvísinda- og lagdeild, 14 af hugvísindadeild og 23 af viðskipta- og hagfræðideild. Alls útskrifuðust 8 af Hjúkrunarbrú og 53 úr ÍAK einkaþjálfaranámi.
Verðlaun voru veitt fyrir framúrskarandi námsárangur. Á Háskólabrú voru það þær Ásta Soffía Ástþórsdóttir í viðskipta- og hagfræðideild, Guðbjörg Skjaldardóttir í hugvísindadeild, Guðrún Helgadóttir og Jóhanna Valdís Torfadóttir í félagsvísinda- og lagadeild sem voru með hæsta meðaleinkunn. Verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í Hjúkrunarbrú hlaut Sóley Ósk Geirsdóttir, í ÍAK einkaþjálfaranámi var það Kristján Ómar Björnsson sem var með hæsta meðaleinkunn.
Hátíðarávarp hélt Jón Atli Benediktsson aðstoðar rektor Háskóla Íslands og varaformaður stjórnar Keilis. Í ávarpi sínu fjallaði Jón Atli m.a. um gjöfult samstarf Keilis og Háskóla Íslands en nú hafa á þriðja hundrað nemendur lokið námi af Háskólabrú sem skipulagt er í samstarfi skólanna tveggja. Í ágúst munu tæplega 50 til viðbótar útskrifast af Háskólabrú. Í ávarpi sínu fjallaði hann einnig um nýtt nám á vegum Orku- og tækniskóla Keilis og Háskóla Íslands. Um er að ræða tvær þverfaglegar námsbrautir í orkutæknifræði og mekatróník tæknifræði og fer kennsla fram hjá Keili á Ásbrú. Verklegar æfingar og rannsóknir nemenda fara fram í fyrsta flokks tilrauna- og rannsóknaraðstöðu í orkufræðum hjá Keili.
Frá útskrift Keilis sl. laugardag. Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson