16 ára fangelsisdómur staðfestur í Hæstarétti
Hæstiréttur staðfesti sextán ára fangelsisdóm Héraðsdóm Reykjaness yfir Ellerti Sævarssyni fyrir að verða Hauki Sigurðssyni að bana í Reykjanesbæ í maí sl. Þá var Ellert dæmdur til að greiða ekkju mannsins, sem hann varð að bana, 3,1 milljón króna í bætur
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 14. október 2010 í samræmi við yfirlýsingu Ellerts um áfrýjun. Þarf Ellert að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti 150.000 krónur. Þá þarf hann að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 462.893 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, 376.500 krónur. Í héraði var honum gert að greiða 2,3 milljónir króna í sakarkostnað.
Fram kemur í dómi héraðsdóms, að Ellert játaði að hafa sparkað í höfuð og líkama Hauks og kastað kantsteini, sem vó 12 kíló, í höfuð hans. Samkvæmt krufningarskýrslu var banameinið miklir höfuðáverkar. Þá bar læknir, að áverkar á hnakka samrýmdust því að þungur steinn hefði lent á höfði hins látna á meðan hann lá á grúfu á jörðinni.
Segir héraðsdómur sannað, að andlát Hauks hafi verið bein afleiðing þeirra höfuðhögga, sem Ellert játaði að hafa veitt honum. Þyki hafa komið fram lögfull sönnun um að Ellert hafi banað Hauki Sigurðssyni aðfaranótt 8. maí sl.
Dómurinn segir, að engin ástæða sé til að draga sakhæfi Ellerts í efa. Hann hafi ekki getað skýrt með viðhlítandi hætti af hverju hann veittist með svo harkalegum hætti að Hauki og hafi borið við minnisleysi um aðdraganda árásarinnar.
„Árás ákærða var ofsafengin og hrottaleg og hlaut ákærða að vera ljóst að slík atlaga myndi leiða þann sem fyrir henni varð til dauða. Þykir háttsemi ákærða réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru. Við mat á refsingu verður litið til þess að ákærði hafði ásetning til þess að vinna slíkt tjón sem raun varð á og koma því engar refsilækkandi ástæður til álita," segir meðal annars í niðurstöðu dómsins. Frá þessu er greint á mbl.is
Myndir frá lögreglurannsókn á vettvangi ódæðisins. Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi