16 ára á bíl
Lögreglan á Suðurnesjum stöðvaði í nótt ökumann bifreiðar og reyndist sá ekki nema 16 ára gamall. Hafi honum þrotið þolinmæðin í langþráðri bið eftir bílprófinu má reikna með að sú bið verði eitthvað lengri vegna þessa uppátækis.
Nóttina áður var 17 ára ökumaður stöðvaður grunaður um akstur undir áhrifum áfengis. Reynist sá grunur réttur verður ekki hægt að svipta hann ökuréttindum því hann hafði engin. Það verður því einhver bið í að hann geti öðlast þau, líkt og sá sem tekinn var í nótt.
Að sögn lögreglu var frekar rólegt á næturvaktinni. Einn gisti fangaklefa vegna ölvunarláta. Höfð voru afskipti af þremum ölvuðum ungmennum í nótt en þau voru á aldrinum 15 - 16 ára.