1500 nemendur hafa sótt SOS uppeldisnámskeið í Reykjanesbæ
Undanfarin tíu ár hefur námskeiðið SOS – Hjálp fyrir foreldra verið haldið í Reykjanesbæ og hafa þau notið mikilla vinsælda. Mikill fjöldi foreldra hefur sótt námskeiðið og nýverið mætti nemandi nr. 1500 á námskeiðið í Reykjanesbæ. Af því tilefni var rætt við Gylfa Jón Gylfason yfirsálfræðing hjá Fræðsluskrifstofu Reykjanesbæjar um námskeiðið.
Innihald námskeiðsins
Gylfi Jón segir innihaldið í raun sáraeinfalt. Námskeiðið er ætlað foreldrum og fagfólki sem eiga eða starfa með börnum á aldrinum 2-12 ára. „Námskeiðið kennir hvernig draga eigi úr óæskilegri hegðun og samtímis auka jákvæða og góða hegðun hjá barninu. Foreldrið verður einnig öruggara í uppeldishlutverkinu“.
Vinsælt námskeið
Aðsóknin hefur verið góð og að jafnaði hafa verið haldin um tíu SOS námskeið á ári að sögn Gylfa Jóns sem hefur kennt öllum 1500 nemendunum suður með sjó. Gylfi Jón segir að kannski hafi námskeiðið orðið svo vinsælt sem raun bar vitni vegna þess að efni námskeiðsins er bæði einfalt, auðskilið og auðvelt að laga það að þörfum hvers og eins. Það er líka sett fram á skemmtilegan hátt með jákvæðni og húmor í bland. Ekki spillir fyrir að hver þátttakandi fær í hendurnar bók með innihaldi námskeiðsins og farið er í gegnum algengustu mistök í uppeldi og hvernig vel er gert á myndbandi sem sýnt er á námskeiðinu.
Gylfi Jón segir að foreldrum í Reykjanesbæ og í nágrannasveitarfélögum þess hafi boðist að fara á námskeiðið án endurgjalds. Öllum foreldrum er sent bréf og þeim boðið að koma á námskeiðið. Sú uppeldistækni sem kennd hefur verið á námskeiðunum hafi haft mikil áhrif á uppeldismál á Suðurnesjum en margir kennarar og starfsmenn leik og grunnskóla hafa einnig sótt námskeiðið. Segja má að það sem kennt er á námskeiðinu sé nú almennt þekkt og viðurkennt meðal foreldra á svæðinu.
Námskeiðið er raunar kennt víðar en í Reykjanesbæ en námskeiðið er í eigu Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands og þangað þurfa áhugasamir að leita vilji þeir sækja námskeiðið.
Forvarnargildi námskeiðsins
Gylfi Jón segir forvarnargildi námskeiðsins ótvírætt. Sagan sýni að með aðferðum sem kennd eru á námskeiðinu takist að koma í veg fyrir að börn þrói með sér alvarlega hegðunarörðugleika og neikvætt viðhorf bæði heima og í skóla. Sé um alvarlegan vanda að ræða geta foreldrar og fagfólk notað SOS aðferðirnar til að taka vel á málum.
Reykjanesbær er sennilega fyrsta stóra bæjarfélagið á Íslandi þar sem um er að ræða samræmdar aðgerðir í uppeldi þar sem starfsfólk á uppeldisstofnunum bæjarins beitir sömu hugmyndafræði og foreldrar barnanna. Það auðveldar samstarf milli foreldra og fagfólks. Fyrir skólana, börnin og fjölskyldur þeirra er æskilegast að leysa vandamálin með samræmdum viðbrögðum áður en þau ná að verða stór og illviðráðanleg. Það hefur í för með sér hamingjuríkara fjölskyldulíf, það er besta forvörnin.
Myndatexti: Brynja Guðmundsdóttir þátttakandi nr. 1500 á SOS námskeiði í Reykjanesbæ tekur á móti gjöf af því tilefni frá Árna Sigfússyni bæjarstjóra Reykjanesbæjar. Gylfi Jón Gylfason hefur haldið námskeiðin frá upphafi.