1500 atvinnulausir: Ástandið mun bjartara á næstunni
Tæplega 1500 manns voru atvinnulausir á Suðurnesjum og þar af 1024 í Reykjanesbæ í nóvember síðastliðinn. Mikil umræða var um þessa bláköldu staðreynd á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ sl. þriðjudag en þrátt fyrir það mátti heyra bjartsýni í fundarmönnum vegna margra atvinnuverkefna sem eru í pípunum á Suðurnesjum.
Í máli bæjarstjóra og fleiri bæjarfulltrúa kom fram að í næsta mánuði mun rekstur gagnavers á Ásbú fara í gang en undirbúningur hefur staðið yfir síðustu mánuði. Þriggja milljarða verkefni í fiskeldi á Reykjanesi hefur göngu sína á vormánuðum og mun kalla á nokkra tugi starfa. Þá er góður gangur í undirbúningi kísilverksmiðju í Helguvík og í kjölfar niðurstöðu gerðardóms gera menn sér vonir um að framkvæmdir við álver í Helguvík fari í gang fyrr en seinna.
Framkvæmdir við nýtt 60 rúma hjúkrunarheimili fara einnig í gang á vormánuðum og mun skapa vinnu við uppbyggingu þessa verkefnis næstu tvö árin en kostnaður við það er á annan milljarð króna.
Auk þessara atvinnutækifæra má gera ráð fyrir enn frekari fjölgun starfa í ferðaþjónustu á Suðurnesjum og í störfum í flugstöð Leifs Eiríkssonar. Þar verða einnig í boði mörg hundruð sumarstarfa. Tvö af stærstu fyrirtækjunum í flugstöðinni, Isavia og IGA sem og síðan Airport Associates sem er einnig í hóp stærstu fyrirtækjana við flugstöðina, auglýstu nýlega sumarstörf. Hjá þessum þremur fyrirtækjum eru nokkur hundruð störf samtals í boði fyrir sumarið 2012.
VF-mynd/pket: Mörg hundruð sumarstarfa verða í boði í og við flugstöðina en þar hefur föstum störfum einnig fjölgað að undanförnu í vaxandi ferðaþjónustu.