15 þúsundasti íbúinn fæddur
Íbúatala Reykjanesbæjar fór upp í 15.000 á föstudaginn þegar sprækur strákur kom í heiminn á ljósmæðravakt Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja.
Af því tilefni mætti Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar á fæðingardeildina og færði fjölskyldunni blómvönd fyrir hönd bæjarins.
Drengurinn vóg 3.995 gr. og var 52 cm langur við fæðingu. Hann er annað barn foreldra sinna, þeirra Katarzynu Helenu Szczepanska og Maciej Palamar en fyrir eiga þau dótturina Susan Rosa fædda árið 2013.
Hér má sjá ljósmóðurina sem tók á móti drengnum, Katrínu Sif Sigurgeirsdóttur ásamt fjölskyldunni.
Mikil fjölgun hefur verið í Reykjanesbæ síðustu ár, sem og á öllu þjónustusvæði HSS. Þar hefur íbúum fjölgað um tæp 30% frá árinu 2005, úr rúmlega 17.000 manns í rúmlega 22.000.