Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Fréttir

132 nýir Sandgerðingar - þar af 20 nýburar
Sigrún Árnadóttir með Sandgerði í baksýn.
Þriðjudagur 26. ágúst 2014 kl. 14:02

132 nýir Sandgerðingar - þar af 20 nýburar

- frá síðustu Sandgerðisdögum fyrir ári. Langflestir með íslenskan uppruna.

„Hér hafa 112 manns eignast lögheimili í fyrsta sinn frá síðustu Sandgerðisdögum og 20 börn til viðbótar fæðst. Fleiri fluttu til bæjarins en frá því á þessu tímabili. Það er mjög jákvætt,“ segir Sigrún Árnadóttir, bæjarstjóri Sandgerðisbæjar, í samtali við Víkurfréttir. Starfsmenn og íbúar Sandgerðis hafa staðið í ströngu undanfarnar vikur og mánuði við að undirbúa árlega Sandgerðisdaga sem hófust í gær. 

 

Boðin velkomin á persónulegan hátt
Nokkur ár síðan Sandgerðisbær hóf að senda bréf til nýrra íbúa og bjóða þeim til móttöku til þess að bjóða fólk á persónulegan hátt velkomið í bæjarfélagið. Boðsbréf fór til þeirra sem eignast hafa lögheimili hér í fyrsta sinn og fjölskyldna barna sem fæðst hafa frá síðustu Sandgerðisdögum. „Þetta er nokkuð stór hópur eða 132 manns og af þeim eru 20 börn sem fæddust á þessu tímabili. Flestir sem hingað fluttust eru Íslendingar og Pólverjar,“ segir Sigrún. 
 
Fjölmenningarlegt samfélag
Í Sandgerði búa rétt rúmlega 1600 manns frá 14 þjóðlöndum. Eins og nærri má geta eru flestir af íslenskum uppruna eða 84% og um 12% eru af pólskum uppruna, 4% íbúanna koma frá Þýskalandi (6), Danmörku (18), Noregur (1), Írlandi (2), Litháen (4), Lettlandi (1), Slóvakíu (1), Portúgal (8), Bandaríkjunum (3), Tælandi (13), Filippseyjum (4), Nígeríu (1). „Íbúasamsetningin sýnir okkur að hér er fjölmenningarlegt samfélag, þ.e. hér býr fólk af ólíkum uppruna, með ólíka siði, hefðir, menningu og tungumál. Það er mikilvægt að við mætum hvert öðru á jafnréttisgrundvelli og berum virðingu fyrir því sem greinir okkur hvert frá öðru. Við viljum auðvitað að allir fái að njóta sín í samfélaginu og í skólanum er leitast við að veita nemendum innsýn í fjölbreyttan menningarlegan bakgrunn nemenda,“ segir Sigrún. 
Public deli
Public deli