Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

1305 einstaklingar án vinnu á Suðurnesjum
Þriðjudagur 23. desember 2008 kl. 08:00

1305 einstaklingar án vinnu á Suðurnesjum


Eittþúsund þrjúhundruð og fimm, 1.305 einstaklingar, eru án atvinnu á Suðurnesjum þegar Þorláksmessa gengur í garð. Þar af eru 756 karlar og 549 konur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Mikil örtröð var á skrifstofu Vinnumálastofnunar í Reykjanesbæ í gær, þar sem fólk var að skrá sig atvinnulaust.

Ef fjöldi atvinnulausra er settur í samhengi við mannfjölda á Suðurnesjum, þá telur þessi hópur 90 fleiri en allir íbúar í Vogum, sem voru um síðustu mánaðamót 1215 talsins. Íbúum á Suðurnesjum fjölgaði um 1149 á síðasta ári, þannig að tala atvinnulausra er því hærri sem nemur 56 einstaklingum. Hópur atvinnulausra tekur um 200 fleiri en allir nemendur Fjölbrautaskóla Suðurnesja í dag- og kvöldskóla.

Ef Vinnumálastofnun myndi ætla að bjóða hópnum í helgarreisu til Akureyrar með innanlandsflugi, þá þyrfti 26 Fokker-flugvélar sem taka 50 manns í sæti til að flytja hópinn og samt þyrftu fimm að taka rútuna!

Að öllu gamni slepptu, þá er um fjórðungur þeirra sem eru án atvinnu á Suðurnesjum erlendir ríkisborgarar, samkvæmt bráðabirgðatölum sem kynntar voru á atvinnumálafundi í Reykjanesbæ á dögunum.

Þegar svo kemur að því að greiða þessum 1305 einstaklingum fullar atvinnuleysisbætur, þá fara samtals rétt rúmar 177,5 milljónir út af reikningum atvinnuleysistryggingasjóðs.


Það er næstum sama upphæð og bankastjóri Nýja Glitnis hefði þurft að borga fyrir hlutabréfin í viðskiptunum sem klikkuðu fyrir bankahrunið.