1300 skellt sér á skauta
- Aðventusvellið opið a.m.k. út febrúarmánuð
Skautasvellið hefur fengið góðar móttökur og yngri sem eldri hafa skellt sér á skauta. Um 1.300 manns hafa skellt sér á skauta á nýju og glæsilegu skautasvelli í Skrúðgarðinum í Keflavík sem opnaði viku fyrir jól. Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, undirritaði samning við systurnar Elínu Rós og Ljósbrá Bjarnadætur fyrir hönd Orkustöðvarinnar ehf. sem verða rekstraraðilar svellsins.
Skrúðgarðurinn hefur í gegnum tíðina verði vinsæll áningarstaður bæjarbúa og m.a. stór hluti af hátíðarhöldum í tilefni þjóðhátíðardagsins ár hvert. Í fyrra vetur var tekin upp ný hefð til að glæða garðinn meira lífi yfir vetrartímann þegar Aðventugarðurinn var opnaður. Mikil ánægja hefur verið með Aðventugarðinn en markmiðið frá upphafi var að byrja smátt og láta hann stækka með árunum.
Auglýst var eftir rekstraraðilum til að sjá um svellið og munu systurnar Elín Rós og Ljósbrá Bjarnadætur fyrir hönd Orkustöðvarinnar ehf. halda utan um reksturinn. Markmiðið er að opna skautasvellið samhliða opnun Aðventugarðsins ár hvert og það verði opið a.m.k. út febrúarmánuð.