1200 lóðum úthlutað á síðustu tveimur árum
Gríðarleg uppbygging hefur verið í Reykjanesbæ síðustu árin og má segja að árið 2005 hafi orðið straumhvörf í þeim efnum þegar gefin voru út 486 byggingarleyfi fyrir nýjum íbúðum. Árið á undan voru útgefin byggingarleyfi 83 talsins og árið 2003 voru þau aðeins 53. Það sem af er þessu ári hafa 238 leyfi verið gefin út þannig að aukningin er mikil og eru nú um 900 nýjar íbúðir í byggingu í Reykjanesbæ. Alls hefur 1200 lóðum verið úthlutað í 4 nýjum hverfum á síðustu misserum.
Eftirspurnin mun meiri en framboðið
Fyrsta hverfið af þessum fjórum var Tjarnarhverfi í Innri-Njarðvík. Tvö ár eru liðin síðan það var deiliskipulagt og markaði það upphafið að þeirri uppbyggingu og þenslu sem kom í kjölfarið. Gert var ráð fyrir 550 íbúðum í þessu hverfi og að það myndi byggjast upp á sjö til tíu árum. Það var heldur varlega áætlað því í dag er nánast allt hverfið komið í byggingu og malbikun gatna að ljúka. Ásóknin var mikil í þær lóðir sem þarna komu til úthlutunar og aldrei áður hafði jafn mörgum lóðum verið úthlutað í einu lagi í Reykjanesbæ. Ljóst var að eftirspurnin var mun meiri en lóðaframboðið.
130 lóðir ruku út á tveimur dögum
Þá var strax hafist handa við að skipuleggja nýtt 500 íbúða hverfi austan við Tjarnarhverfið, svokallað Dalshverfi. Blekið var varla þornað á skipulagsuppdrættinum þegar umsóknir byrjuðu að streyma inn og fljótlega varð ljóst að enn var lóðaframboðið minna en eftirspurnin. Þá var ráðist í skipulagninu á Ásahverfi í svokölluðum Grænási, þar sem gert var ráð fyrir 130 einbýlishúsalóðum. Er skemmst frá því að segja að þær lóðir ruku út á tveimur dögum eftir að þær voru auglýstar.
Deiliskipulag tilbúið fyrir ný 700 íbúða hverfi
Deiliskipulag að Dalshverfi 2 fylgdi í kjölfarið og gerir það ráð fyrir 500 íbúðum til viðbótar. Í fyrstu umferð komu 77 lóðir lóðir til úthlutunar fyrir einstaklinga og bárust 130 umsóknir í þær. Eftirspurnin virtist ekkert vera að minnka og að sögn Viðar Márs Aðalsteinssonar, forstöðumanns umhverfis- og skipulagssviðs, er búið að úthluta öllum þeim lóðum sem komið hafa til úthlutunar í þeim hverfum sem að ofan eru nefnd.
Nú liggur fyrir nýtt deiliskipulag að hverfi sem hlotið hefur nafnið Stapahverfi. Þar er er gert ráð fyrir 700 nýjum íbúðum, mest sérbýlum. Að sögn Viðars Más er óvíst hvernær þær lóðir koma til úthlutunar. Alltaf sé eitthvað um það að lóðir komi aftur til baka til úthlutunar og hinkrað verður með úthlutanir í Stapahverfi þangað til í ljós kemur hversu margar lóðir ganga af.
Að sögn Steinþórs Jónssonar, formanns Umhvefis- og skipulagsnefndar Reykjanesbæjar, lætur nærri að með sama áframhaldi muni rísa ný 5000 manna byggð á næstu þremur árum í þessum nýju hverfum. Í heildina er gert ráð fyrir 10 þúsund manna íbúum í þeim. Steinþór segir þessi hverfi eftirsóknarverð þar sem skipulag þeirra geri nær eingöngu ráð fyrir sérbýlum og fjölskylduvænum hverfum. Auk þess sé lóðaverð mun lægra en þekkist t.d. á höfuðborgarsvæðinu. Um 40% nýrra lóðahafa er fólk sem hyggst flytja til Reykjanesbæjar annars staðar frá. Meginþorri þess fólks er af höfuðborgarsvæðinu og nærliggjandi byggðum.