12-14 með svínaflensuna á Suðurnesjum
Í dag eru 12-14 einstaklingar með svínaflensuna á Suðurnesjum, samkvæmt upplýsingum frá Heilbrigðistofnun Suðurnesja. Grindvískir knattspyrnumenn komust í fréttirnar í gær þegar um tugur þeirra var orðinn rúmliggjandi og tveir leikmenn meistaraflokks Grindavíkur voru staðfestir með svínaflensu. Fréttir gærdagsins vöktu spurningar um hvort faraldur væri að bresta á á Suðurnesjum
Ingibjörg Steindórsdóttir stendur inflúensuvaktina hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Hún tekur á móti 20-30 símtölum á dag en sérstakur vaktsími er opinn frá kl. 08-20. Hún benti hins vegar á að auk hinnar svokölluðu svínaflensu séu margar aðrar pestir að ganga í dag. Þó fólk sé veikt, þarf það ekki endilega að vera með svínaflensuna. Áríðandi sé hins vegar að fylgja leiðbeiningum sem birtar eru á influensa.is.
Ingibjörg hvetur þá sem finna til slappleika að sleppa því að mæta til vinnu. Sóttvarnaráð Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja bendir á það á vef HSS að það sé ekki hetjuskapur að fara veikur í vinnuna, það sé heimska. Þá segir að kirkjugarðarnir séu fullir af ómissandi fólki.
Finni fólk fyrir einkennum inflúensu sé það hvatt til að mæla hita og fylgja reglum. Þær eru helstar að forðast fjölmenni, halda sig í minnst eins metra fjarlægð frá næsta manni ef unnt er og ekki síst ef hann er hóstandi. Fólk er hvatt til að hafa einnota þurrkur á sér, hósta í þær og snýta og fleygja síðan í rusl. Gullna reglan era ð þvo sér rækilega um hendur og oft. Helst eftir hverja þurrkunotkun. Fólk er jafnframt hvatt til að nota handspritt.
Fólk er hvatt til að sýna ekki af sér kæruleysi finni það fyrir einkennum flensunnar. Fólk verður bæði að hugsa um sjálft sig og eins aðra sem kunna að vera veikir fyrir eða eru ekki heilsuhraustir.
Svolítið bar á þeirri umræðu nú eftir verslunarmannahelgi að það væri bara fínt að fá flensuna strax og þá væri það bara búið. Ekkert hefur verið sannað í þeim efnum að flensan geti ekki tekið sig upp aftur hjá fólki. Það sé því varasamt að „gefa skít í flensuna“ og „vera alveg sama“. Fólk geti veikst mjög hastarlega af svínaflensunni og öðrum pestum sem nú ganga. Óvarkárni geti því haft mjög alvarlegar afleiðingar og vísast þá aftur til ummæla sóttvarnaráðs að „ kirkjugarðarnir séu fullir af ómissandi fólki“.