115 Kia-bílar til Suðurnesja á síðasta ári
Nýliðið ár var gott í sölu Kia-bíla á Suðurnesjum. K. Steinarsson, sem er umboðsaðili fyrir Kia á Suðurnesjum, seldi samtals 115 bíla árið 2012. Milli jóla og nýárs afhenti Kjartan Steinarsson bílasali ellefu nýja Kia-bíla til vaxandi ferðaþjónustufyrirtækis í Garðinum.
Það eru bræðurnir Gísli, Þorsteinn og Einar Heiðarssynir sem reka ferðaþjónustu í Garði með því að bjóða gistingu í íbúðum. Þeir bræður hafa fundið fyrir þörf hjá sínum viðskiptavinum sem vilja geta leigt bæði gistingu og bíl. Þeir keyptu því ellefu Kia-bíla í ýmsum stærðum af Kjartani og hafa stofnað til bílaleigu í Garði undir nafninu GSE ehf.
Kjartan Steinarsson hjá K. Steinarssyni segir að hann sé sáttur við bílasöluna á nýliðnu ári. Salan sé að mjakast uppá við. Af þeim 115 Kia-bílum sem hann hafi selt á árinu hafi um 30% verið til bílaleiga á Suðurnesjum en annað hafi farið til einstaklinga. Kía er með breiða línu af bílum, allt frá smábílum og upp í jepplinga. Þá gerðist K. Steinarsson einnig söluaðili fyrir Suzuki-bíla á Suðurnesjum á síðasta ári.