104 kærðir vegna farsíma
Lögreglan í Keflavík hefur, það sem af er árinu, stöðvað eitt hundrað og fjóra ökumenn og sektað fyrir notkun farsíma við akstur án handfrjálsbúnaðar. Það er töluverð fjölgun frá síðasta ári en þá voru einungis 72 kærðir. Svo virðist sem að júní sé tími þeirra sem tala í símann við akstur en þá voru 28 kærðir á móti aðeins einum í janúar mánuði.
Jón Halldór Eðvaldsson, þjónustustjóri Símanns í Reykjanesbæ, sagði í samtali við Víkurfréttir að þeir séu búnir að selja 2-3 þúsund pakka af handfrjálsum búnaði undanfarin 2 ár. „Það hefur gerst að fólk hafi verið sektað af lögreglu og komið til okkar strax eftir það og keypt af okkur búnað,“ sagði Jón. Handfrjáls búnaður kostar allt frá þúsund krónum á meðan sektin er fimm þúsund krónur.