100 tonna tæki til HS
Miklum farmi var skipað upp á Njarðvíkurbryggju í gær þegar tveir 50 mW gufuhverflar, rafall og fleira sem nota á í Reykjanesvirkjun Hitaveitu Suðurnesja kom á áfangastað eftir langt ferðalag.
Tækjabúnaðurinn er frá fyrirtækinu Fuji í Japan og er engin smásmíði, hverflarnir og rafallinn eru yfir 100 tonn að þyngd hvert og var flutt á sérstökum þungaflutningabíl upp að byggingu Reykjanesvirkjunar.
Albert Albertsson, aðstoðarforstjóri Hitaveitu Suðurnesja, sagði í samtali við Víkurfréttir að HS hafði áður skipt við Fuji og væri með vélar frá þeim í Svartsengi þar sem þær hefðu reynst vel.
Albert bætti því við að framkvæmdir við virkjunina gengju vel og stæði enn til að setja Reykjanesvirkjun í gang þann 1. maí á næsta ári eins og gert var ráð fyrir í upphafi.