Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

100 milljóna kr. lykill falinn í móa við Rockville!
Þriðjudagur 10. júní 2003 kl. 19:46

100 milljóna kr. lykill falinn í móa við Rockville!

Guðmundur Jónsson, forstöðumaður Byrgisins í Rockville, lokaði hliðinu að Rockville í síðasta skiptið í dag á táknrænan hátt. Eftir að flutningabíll hafði ekið í gegnum hliðið með síðustu skrifstofuhúsgögn Byrgisins, var hliðinu skellt í lás og lyklinum kastað út í móa með þeim orðum að þarna fari 100 milljónir fyrir lítið. Þar vitnaði Guðmundur til þess kostnaðar við uppbyggingu Rockville fyrir starfsemi Byrgisins.Einu hlutirnir sem eftir eru í Rockville eru líkamsræktartæki í heilsurækt Byrgisins, um 20 tonn af lyftinga- og líkamsræktarbúnaði sem ekki er ljóst hvar verður hægt að koma fyrir. Vakt er staðin í stöðinni, til að koma í veg fyrir þjófnað.

Lögreglan á Keflavíkurflugvelli hefur síðustu vikuna haft eftirlit með Rockville til að koma í veg fyrir þjófnaði á svæðinu. Ennþá býr fólk í Rockville þrátt fyrir að rafmagn hafi verið tekið af staðnum þann 2. júní sl. Bjartar nætur og hlýtt veður hefur gert vistina þolanlegri.

Guðmundur Jónsson í Byrginu á von á því að á næstu dögum verði þjófaflokkar búnir að leggja stöðina í rúst, en sjálfu Byrginu var bannað að hafa nokkuð naglfast á brott með sér frá staðnum. Fram hefur komið að endurbætur á Rockville kostuðu Byrgið um 100 milljónir króna.

Myndin: Lykillinn af hliðinu að Rockville liggur í móanum við stöðina og bíður þess að verða fundinn af þeim sem vilja "ræna" Rockville næstu nætur. VF-mynd: Hilmar Bragi Bárðarson
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024