100 krakkar í æsispennandi Legohönnunarkeppni á Ásbrú
Um eitthundrað börn tóku þátt í Legóhönnunarkeppninni First Lego League sem haldin var á Ásbrú í Reykjanesbæ um liðna helgi. Meðal þátttakenda voru keppnislið frá Myllubakkaskóla og Akurskóla í Reykjanesbæ en athygli vakti einnig að fimm lið komu til þátttöku frá Austurlandi en aðeins tvö frá höfuðborgarsvæðinu. Eftir æsispennandi keppni varð það svo niðurstaðan að lið Salaskóla í Kópavogi varð sigurvegari. Lið Myllubakkaskóla í Reykjanesbæ hafnaði í 2.-3. sæti.
Það sem liðin þurfut að leysa í keppninni var smíði á vélmenni úr tölvustýrðu LEGO og að forrita það til að leysa ákveðnar þrautir. Þá þurfti liðið að leysa rannsóknarverkefni, halda dagbók og búa til skemmtiatriði.
Liðið sem vann í Legóhönnunarkeppninni vann sér rétt til þátttöku á Evrópumóti First Lego League. Sigurliðið ber sjálft allan kostnað við þátttöku á Evrópumóti. Ef sigurliðið ákveður að nýta ekki þátttökurétt sinn flyst hann til liðsins sem var í öðru sæti og svo koll af kolli. Þannig gætu stúlkurnar átta úr Myllubakkaskóla átt kost á því að fara til Tyrklands á næsta ári ef Salaskóli gefur frá sér þátttökuréttinn.