100 færri á atvinnuleysisskrá
- Niðurstöður kjarakönnunar Flóabandalagsins.
Jákvæð þróun og stígandi er í atvinnumálum á Suðurnesjum. Að sögn Kristjáns Gunnarssonar, formanns Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis, voru 100 færri á atvinnuleysisskrá í janúar en í desember. „Þrátt fyrir að kjarasamningar voru felldir erum við í uppsveiflu. Þegar þeir hafa náðst verður þetta allt upp á við,“ segir Kristján og bætir við að samninganefndir séu að hittast á ný þessa dagana og ráða ráðum sínum, eftir að samningar voru felldir í janúar.
Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur er aðili að Flóabandalaginu og í niðurstöðum nýlegrar könnunar bandalagsins kemur m.a. fram að fleiri eru með vinnu og laun hafa einnig hækkað:
Fleiri með vinnu og auknar fjárhagsáhyggjur
Fleiri eru í fullu starfi nú en hafa verið síðan í ágúst 2007 og hlutfall þeirra sem eru starfandi eykst í öllum aldurshópum hjá Eflingu og VSFK en stendur í stað hjá Hlíf. Þó er dvínandi starfsöryggi og óöryggi tengist t.a.m. áhyggjum af fjárhagsstöðu. Þetta er á meðal helstu niðurstaðna nýrrar kjarakönnunar sem Capacent gerði fyrir Flóabandalagið, en í því eru Efling, Hlíf og Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis.
Aukin atvinnuþátttaka
Fjölgun meðal atvinnuþátttakenda er í næstum öllum aldurshópum og aukning hjá öllum félögum. Þá hefur atvinnuleysistími styst. Lægst var starfsöryggi hjá ríki, í byggingarstarfsemi/mannvirkjagerð, málmframleiðslu, heildsölu og smásölu. Auknar áhyggjur eru af fjárhagsstöðu í öllum aldurshópum og stéttarfélögunum þremur.
Laun hækka og vinnutími stendur í stað
Heildarlaun hækka um 10%, körlum fjölgar örlítið í hópnum og því hækka launin í heild meira en hjá hvoru kyni fyrir sig. Laun félagsmanna félaganna þriggja hækka mismikið en álíka mikið ef miðað er við tímabilið 2010-2013. Þá er ánægja með að laun standi í stað. Vinnutími og vinnuálag standa nokkurn veginn í stað. Fjarvistir hafa aukist síðustu ár, úr 38% 2011 í 42% 2013. Flestir eru ánægðir með staðsetningu orlofshúsa og mjög fáir óánægðir.
Fleiri konur atvinnulausar
Yngra fólk hefur frekar reynslu af atvinnuleysi síðastliðin tvö ár og fólk með skemmri starfsaldur. Fólk með „veika atvinnustöðu“ hefur einnig frekar reynslu af atvinnuleysi. 67 af svarendum voru án atvinnu, flestir styttra en 2 mánuði. Flestir atvinnulausir eru konur á aldrinum 45-54 ára.
Úrtak og þýði
Lagt var upp með að úrtak endurspeglaði þýði með tilliti til stéttarfélags og ÍSAT Atvinnugreinar. Ef litið er til kynjahlutfalla svarenda, þá starfa karlar aðallega sem verkamenn og véla- og vélgæslumenn, en konur í mötuneytum, við veitingastörf, umönnun og ræstingar, leiðbeinendur og við iðnaðarstörf. Þá hafa flestir svarendur lokið grunnskólaprófi auk starfsmenntunar. 81,5% svarenda eru launþegar eða einyrkjar, 8% án atvinnu og 10,5% eru í námi, leyfi, á eftirlaunum eða heimavinnandi.
Um þriðjungur svaraði
Könnunin fór þannig fram að send voru bréf til 3300 viðtakenda, með upplýsingum um könnunina, vefslóð og lykilorði. Af 3300 bréfum voru 329 endursend þar sem þátttakendur fundust ekki. Í framhaldinu var hringt í þátttakendur og þeim boðið að svara könnuninni í síma eða á neti. Af þeim sem náðist í neituðu 725 að svara en 519 fundust ekki. Það náðist í 1449, sem fengu senda könnun og henni svöruðu 1082.
Aukinn kostnaður á almenning
Á vefsíðu VSKF kemur fram að minnkandi atvinnuleysi megi rekja að miklu leyti til fjölgunar starfa í ferðaþjónustu sem óvíst sé að verði til frambúðar. Bág kjör, erfið skuldastaða heimila og fyrirtækja og viðvarandi há verðbólga sé það sem einkenni íslenskt samfélag. Ríki, sveitarfélög og atvinnulífið í landinu hafi ítrekað velt kostnaðarauka yfir á almenning. Á sama tíma og forsvarsmenn atvinnulífsins og ríkisvaldið tali um nauðsyn þjóðarsáttar í formi kostnaðaraðhalds í samfélaginu séu vísbendingar um aukið launamisrétti í þjóðfélaginu.
Stöðugleiki ekki á valdi launafólks
Mikilvægt sé að hraða uppbyggingu efnahagslífsins með því að efla atvinnulífið og skapa gott svigrúm til almennrar kaupmáttaraukningar. Losun hafta sé forgangsmál og forsenda stöðugleika. Það verði hins vegar ekki gert með því að setja kröfuna um stöðugleika á launafólk eitt og sér. Til verði að koma víðtæk aðgerðaráætlun og samstaða þar sem ríkisvaldið, sveitarfélög, fjármálamarkaðurinn og Samtök atvinnulífsins axli einnig ábyrgð á viðfangsefninu.
Samræmd launastefna
Megináherslur Flóabandalagsins taka mið af fyrrgreindum staðreyndum og að markmið launabreytinga verði að tryggja aukinn kaupmátt, hækka sérstaklega lægri launataxta og tekjutryggingu. Mikilvæg forsenda samninga verði að byggt sé á samræmdri launastefnu allra samtaka launafólks.