10 ljósalög í úrslit
Alls bárust 50 lög í Ljósalagskeppnina sem haldin er í tengslum við Ljósanótt í Reykjanesbæ 2004 og úr þeim hafa 10 verið valin til úrslita.
Þetta er í þriðja sinn sem keppnin er haldin og er skemmst að minnast vinningslagsins frá í fyrra, "Ljóssins englar", í flutningi Rutar Reginalds.
Dómnefndina skipuðu Jón Ólafsson, Guðbrandur Einarsson, Baldur Guðmundsson og Stefán Hjörleifsson og þeim til halds og trausts voru Íris Jónsdóttir fulltrúi menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs Reykjanesbæjar og Valgerður Guðmundsdóttir menningarfulltrúi Reykjanesbæjar.
Það var samdóma álit dómnefndar að erfitt hefði verið að velja úr innsendum lögum því mikið úrval góðra laga hafði borist. Eftir miklar vangaveltur voru 10 lög valin í úrslitakeppnina sem haldin verður í Stapa í lok ágúst.
Jón Ólafsson mun hafa samband við vinningshöfundana á næstu dögum en hann hefur tekið að sér að stjórna útsetningu laganna með útgáfu í huga. Aðrir þátttakendur fá lögin sín send til baka og vill menningarfulltrúi koma á framfæri til þeirra þakklæti fyrir þátttökuna frá undirbúningsnefnd Ljósanætur, en frá þessu er greint á vef Reykjanesbæjar.