1.600 milljónir til tvöföldunar Brautarinnar til viðbótar við milljarð á vegaáætlun
Samtals verður 1.600 milljónum króna af söluverðmæti Símans varið til að ljúka tvödöldun Reykjanesbrautar. Símaféð kemur fyrst til ráðstöfunar árið 2007 þegar 700 milljónir koma til verksins, árið 2008 koma 600 milljónir og árið 2009 verður síðustu 300 milljónunum varið til verksins. Þá eru ótaldar 983 milljónir króna sem koma til verksins á árunum 2006-2008.
Á síðasta ári var lokið við fyrsta áfanga breikkunar Reykjanesbrautar milli Hafnarfjarðar og Reykjanesbæjar úr tveimur í fjórar akreinar. Þessi fyrsti áfangi er um 12 km. frá Hvassahrauni suður á Strandaheiði. Því sem eftir er af verkinu er unnt að skipta í þrjá áfanga, þ.e. Hafnarfjörður (Kaldárselsvegur) – Krýsuvíkurvegur, Krýsuvíkurvegur – Hvassahraun og Strandaheiði – Reykjanesbær (Víknavegur). Í gildandi vegáætlun eru fjárveitingar á árunum 2006–2008, samtals 983 m.kr. og hefur verið við það miðað að sú upphæð verði notuð í síðast talda kaflann. Kostnaðaráætlun fyrir það verk er um 2.000 m.kr. þannig að um 1.000 m.kr. af þeim 1.600 m.kr. sem hér eru ætlaðar til Reykjanesbrautar þarf til að ljúka kaflanum. Í vegáætluninni er einnig gert ráð fyrir fjárveitingu til að gera mislæg gatnamót Reykjanesbrautar og Krýsuvíkurvegar en með 600 m.kr. viðbót verður unnt að ráðast í breikkun vegarins milli Kaldárselsvegar og Krýsuvíkurvegar. Við það er miðað að þessum tveimur áföngum af þremur sem eftir eru verði lokið árið 2009, segir á vef Forsætisráðuneytisins.
Þá var jafnframt tilkynnt í dag að 400 milljónum verði varið til Suðurstrandarvegar á árunum 2008 til 2009 eða 200 milljónum króna hvort ár.
Mynd: Frá baráttufundi áhugahóps um tvöföldun Reykjanesbrautar í Stapa fyrir nokkrum misserum.