„ Glórulaust og algjörlega ga ga”
Meirihlutinn í Reykjanesbæ hyggst breyta skuldum Víkingaheima við bæjarfélagið í hlutafé. Kristinn Þór Jakobsson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins, gagnrýndi þessa ráðstöfun harðlega á bæjarstjórafundi á þriðjudaginn og sagði hana glórulausa.
Tvö félög voru stofnuð um rekstur Víkingaheima, Íslendingur ehf og Útlendingur ehf. Tapið á reksti Útlendings nemur 54 milljónum króna en hagnaður Íslendings er 24 milljónir. Heildartapið nemur því um 30 milljónum króna, samkvæmt því sem fram kom í umræðu á bæjarstjórnarfundinum.
Kristinn lýsti furðu sinni yfir þeirri ákvörðun meirihlutans að leysa til sín hlutafé Víkingaheima þar sem rekstargrundvöllur þeirra væri mjög tæpur. Að fara með bæjarsjóð í þennan rekstur hlyti að orka tvímælis. Taldi hann þessu fé betur farið í skylduverkefni bæjarfélagsins. Rekstur Víkingaheima væri ekki lögbundið skylduverkefni sveitarfélagsins
„Þess vegna verð ég að lýsa vanþóknum minni á þessu – þetta er glórulaust og algjörlega ga ga fyrirtæki að fara í fyrir bæjarsjóð,“ sagði Kristinn, sem taldi þennan rekstur betur kominn í höndum einkaaðila. Sagði hann það stórfurðulegt að Reykjanesbær ætlaði að fara í rekstur Víkingaheima á sama tíma og staðið væri í blóðugum niðurskurði í rekstri bæjarfélagsins.
Böðvar Jónsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks að það athyglisvert að verið væri að vitna í ársreikninga á uppbyggingatíma Víkingaheima. Bæjarfélagið hefði tekið þátt í þessu verkefni frá árinu 2002 með kostnaðarþátttöku ríkisins. Reykjanesbær hafi sett um 100 milljónir króna í verkefnið á þessum átta árum. Nú væri verið að breyta skuldum í hlutafé. „Safnið hefur verið opið í stuttan tíma og er að komast af stað. Það hefur ekki verið rekið nema hluta úr ári og kostnaðartölur sem hér er verið að vísa til og kalla árlegt tap eru ekki vegna rekstarkostnaðar, hvorki Útlendings né Íslendings, heldur vegna uppbyggingarkostnaður. Það má vel vera að rekstur á svona safni muni ekki skila sér fyrsta árið, jafnvel ekki á öðru eða þriðja ári. Menn hafa góðar vonir til þess að til framtíðar verði þetta góð viðbót í þá ágætu flóru safna sem eru hér í Reykjanesbæ. Það væri fróðlegt að heyra hvort Kristinn þá vill með sömu rökum ganga í að loka þeim söfnum sem við erum að reka hér í Reykjanesbæ, Listasafninu, Bátasafninu og svo framvegis. Þetta er vissulega ekki skylduverkefni sveitarfélagsins og alveg örugglega ekki að skila sér peningalega en skilar sér með öðrum hætti. Við erum að byggja hér samfélag þar sem við leggjum m.a. áherslu á menningarþáttinn og þetta er einn liður í því,“ sagði Böðvar.