Fyrsta útskipun á kísilmálmi hjá United Silicon hf. í Helguvík

Fyrsti kísilmálmurinn, sem framleiddur er í nýrri verksmiðju United Silicon hf. í Helguvík, var fluttur með Lagarfossi frá Helguvíkurhöfn í gærkvöldi. Samtals 12 gámar með rúmlega 300 tonn af kísilmálmi voru lestaðir um borð í Lagarfoss sem sigldi síðan af stað með farminn á leið til Rotterdam.

„Þetta eru stór og mikil tímamót fyrir okkur enda fyrsti kísilmálmurinn sem framleiddur er á Íslandi. Kísill framleiddur hjá United Silicon hf. á Íslandi er þar með á leið til viðskiptavina félagsins í Evrópu. Um helmingurinn af öllum kísli, sem við munum framleiða, fer áfram til framleiðslu á polysilicon sem er ofurhreinn kísilmálmur sem einungis er notaður í sólarrafhlöður. Þær eru m.a. settar upp á húsþök víða um heim og framleiða viðvarandi græna orku. Þannig er orðið að veruleika eitt aðalmarkmið okkar, sem er að flytja út græna orku Íslands til framleiðslu á enn grænni orku erlendis,“ segir Magnús Garðarsson, stjórnarmaður hjá United Silicon hf. í tilkynningu frá fyrirtækinu.

„Framundan eru spennandi tímar fyrir félagið og við megum vera stolt að framleiðsla á Ísland taki þátt í þessum framtíðariðnaði sem nú þegar hefur komið í ljós að mun breyta orkuframleiðslu í öllum heiminum. Þar má t.d. benda á að nýtt met var slegið á fyrsta helmingi ársins 2016, samkvæmt fréttum BBC, sem greindi frá því að um hálf milljón sólarrafhlöður, að meðaltali, voru settar upp á hverjum degi á þessu tímabili. Þetta eru góð tíðindi og sérstaklega gleðilegt að Ísland tekur nú þátt í sólariðnaði heimsins,“ segir hann.

„Starfsmenn United Silicon hf. hafa unnið hörðum höndum nótt sem nýtan dag undanfarnar vikur við að koma kísilverksmiðjunni í gang og láta þetta verða að veruleika. Ég vil nota þetta tækifæri og þakka þeim sérstaklega fyrir frábært vinnuframlag, síðustu mánuðina,“ segir Helgi Þórhallsson, forstjóri United Silicon hf. í tilkynningunni sem send var til Víkurfrétta.