Fréttir

„Algjörlega búin að fá nóg af þessu helvítis rugli“
Miðvikudagur 9. janúar 2019 kl. 19:20

„Algjörlega búin að fá nóg af þessu helvítis rugli“

- Allt á suðupunkti á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ

Margrét Ólöf A. Sanders, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks í bæjarstjórn Reykjanesbæjar brást mjög reið við bókun Margrétar Þórarinsdóttur bæjarfulltrúa Miðflokksins á fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar í gær. Margrét Sanders barði af afli í ræðupúlt bæjarstjórnar um leið og hún sagðist „algjörlega búin að fá nóg af þessu helvítis rugli í þessum Miðflokki“.
 
Margrét Þórarinsdóttir bókaði í upphafi fundar vegna lögsóknar Gildis lífeyrissjóðs á hendur Reykjanesbæ. „Miðflokkurinn harmar lögsókn Gildis lífeyrissjóðs. Þetta mál varðandi höfnina er allt hið undarlegasta. Sú vinnuregla er til staðar að þegar á að fara í hafnarframkvæmdir í sveitarfélagi þá á að semja fyrst við ríkið varðandi fjármögnun. Meirihlutinn á þeim tíma fór með skófluna og byrjaði framkvæmdir og ætlaði svo að fá fjármagn frá ríkinu en það sést á því hverjir eru kröfuhafar. Því var marghafnað af ríkinu og því fór sem fór og íbúar Reykjanesbæjar sitja uppi með allar skuldirnar.  Miðflokkurinn harmar þessi vinnubrögð og íbúar bera ENGA ábyrgð á þessu fjármálasukki,“ segir í bókun Margrétar Þórarinsdóttur, oddvita Miðflokksins.
 
„Algjörlega er ég undrandi hvernig Miðflokkurinn byrjar nýtt ár. Hvað er að?,“ spurði Margrét Sandgers og hélt áfram: „Hvar er framtíðarsýnin? Hvar er það sem þið stefnið að til framtíðar? Þið byrjið á því með bókun hvernig einhver fortíð var og farið rangt með“. Margrét Sanders sagði að vel hafi verið farið yfir málaferli Gildis lífeyrissjóðs í bæjarráði og hvatti hún nöfnu sína til að afla upplýsinga um það. Gildi væri ekki að standa sig og væri eini kröfuhafinn sem væri ekki að ganga að kröfum bæjarins. „Svo komið þið og talið um einhverja fortíðardrauga og líka farið með rangt mál eins og það sé bara sukk og svínarí. Eru þá menn á snekkjum og búnir að stela frá bænum? Hvað eruð þið að tala um? Ég er algjörlega búin að fá nóg af þessu helvítis rugli í þessum Miðflokki,“ sagði Margrét Sanders og var reið eins og sjá má í myndskeiði sem fylgir fréttinni.
 
„Ég ætla að biðja bæjarfulltrúa að gæta orða sinna í pontu svo ég þurfi ekki að fara að beita hamrinum sem ég er nýbúinn að laga. Það hefur greinilega einhver beitt honum í fortíðinni,“ sagði Jóhann Friðrik Friðriksson, forseti bæjarstjórnar.
 
Víkurfréttir hafa klippt saman bókun Margrétar Þórarinsdóttur og viðbrögð þeirra Margrétar Sandgers og Jóhanns Friðriks Friðrikssonar forseta bæjarstjórnar.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024