„Þetta er búið að vera ævintýri líkast“

- átakið á Allra vörum með söfnunarþátt

Á allra vörum átakið hófst 6. september sl. og er óhætt að segja að þjóðin hafi tekið málefninu opnum örmum því aldrei hafa forsvarskonur átaksins fundið fyrir öðrum eins meðbyr. Ein þeirra er Elísabet Sveinsdóttir, sem er fædd og uppalin í Keflavík.

"Þetta er búið að vera ævintýri líkast hjá okkur stöllum. Við byrjuðum fyrir 9 árum síðan þegar við studdum Krabbameinsfélagið og náðum að safna yfir 50 milljónum króna með því að selja varagloss. Eftir það var ekki aftur snúið, hugmyndin var einfaldlega of góð til að gera þetta bara einu sinni. Við stofnuðum því formlega Á allra vörum góðgerðarfélagið og er þetta átak núna það 8. í röðinni. Á þessum tíma telst okkur til að hafa safnað hálfum milljarði til góðra málefna".

Í ár beinir Á allra vörum kastljósinu að Kvennaathvarfinu og uppbyggingarstarfi þess. Þar hefur verið unnið ómetanlegt starf allt frá stofnun fyrir 35 árum síðan, í þágu kvenna og barna sem búa við ofbeldi. Kvennaathvarfið er þó fyrst og fremst neyðarathvarf og er hugsað sem tímabundin lausn. Núna snýst átakið um landssöfnun fyrir uppbyggingu á íbúðahúsnæði  fyrir konur og þeirra börn sem eiga ekki í öruggt skjól að venda að lokinni dvöl í Kvennaathvarfinu.

“Við finnum gríðarlegan meðbyr með þessu átaki, eins og reyndar alltaf. Fólk er almennt tilbúið að styðja okkur og við þurfum að hafa minna fyrir hlutunum nú en áður. Ég finn ekki síst fyrir stuðningi Suðurnesjafólks sem er duglegt að tala vel um átakið og leggja sitt af mörkum. Mér þykir extra vænt um að heyra hlý orð í okkar garð frá Keflvíkingum - það kemur við hjartað.

Líkt og áður vekur Á allra vörum athygli á málefninu með því að selja varasett frá náttúrulega snyrtivöruframleiðandanum Benecos, gloss og varalit saman í pakka.

“Já það er rétt. Við vorum nokkuð djarfar fannst okkur þegar við pöntuðum 10 þúsund sett af þessum viðurkennda þýska snyrtivöruframleiðanda Benecos í byrjun árs. Sem betur fer var sú ákvörðun rétt því nú eru varasettin uppseld hjá dreifingaraðilanum og einungis örfá stykki til úti markaðnum, þannig að þeir sem eiga eftir að kaupa geta hugsanlega orðið sér úti um sett á einum af okkar sölustöðum".

Lokahnykkur átaksins er laugardaginn 23. september þegar RÚV og Sjónvarp Símans taka höndum saman og senda út  söfnunarþátt á báðum stöðvum samtímis. Hefst útsendingin kl. 19:45 og stendur yfir í rúmlega 2 klukkustundir.  Hægt verður að hringja í beint númer 755-5000 meðan á útsendingu stendur. Einnig er opið í 900 númerin: 903-1502, 903-1505 eða 903-1508 fyrir 2.000, 5.000 eða 8.000 krónur.

“Við erum spenntar fyrir laugardeginum og vonum að þjóðin sé það líka og að þeir sem eru aflögufærir gefi í söfnunina. Það munar svo miklu máli að ná slagkrafti í þessu þjóðarátaki - allt skiptir máli og ekkert er of smátt til að leggja til átaksins. Ég vona að Suðurnesjafólk taki vel í þetta með okkur eins og allir".

Rás 2 tekur einnig virkan þátt í söfnuninni og á föstudaginn 22. september verður sérstakur Á allra vörum söfnunarþáttur frá kl. 12:45 - 16:00 þar sem fyrirtæki og einstaklingar geta lagt átakinu lið, keypt lög inn í útvarpið og jafnframt slegið þau út.

Um Á allra vörum
Frá árinu 2008 hefur Á allra vörum valið nokkur verðug verkefni og safnað fyrir. Um er að ræða Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna, Ljósið, Krabbameinsfélag Íslands, Leiðarljós, geðgjörgæsludeild Landspítalans, Neistann og Erindi samskiptamiðstöð gegn einelti. Upp undir 500 milljónir króna hafa safnast í þessum átökum, bæði með beinum fjárframlögum og gjöfum ýmiskonar. Söfnunin fyrir Kvennaathvarfið er sú áttunda sem Á allra vörum ræðst í og óskar eftir stuðningi þjóðarinnar. Fylgjast má með átakinu og undirbúningi þess á: www.facebook.com/aallravorum.is