„Spennandi verkefni“, segir Ragnheiður Elín um sjávarklasa í Seattle

„Þetta er afar spennandi verkefni sem Þór Sigfússon, stofnandi Íslenska sjávarklasans leitaði til mín um að leiða. Íslenski sjávarklasinn var stofnaður árið 2011 og hefur hugmyndafræði hans og árangur vakið mikla alþjóðlega athygli, sérstaklega í Bandaríkjunum,“ segir Keflvíkingurinn Ragnheiður Elín Árnadóttir, fyrrverandi ráðherra og þingmaður  en hún er nýkomin frá Seattle þar sem hún vinnur nú að því að setja af stað sjávarklasa þar og í kringum borgina.

Þegar hefur verið stofnaður klasi - New England Ocean Cluster - byggður á íslensku fyrirmyndinni í Portland í Maine fylki og mun hús klasans opna þar í næsta mánuði. Fleiri svæði hafa einnig sett sig í samband við Þór og hans fólk og er Seattle þar á meðal.

„Það svæði á margt sameiginlegt með Íslandi, þar er sterkur sjávarútvegur, gríðarlega mikil nýsköpun og sterkt háskólasamfélag. Mitt hlutverk verður að setja Seattle Ocean Cluster á laggirnar og leiða saman áhugasama heimamenn í samvinnu við íslensk fyrirtæki og stofnanir sem við finnum líka mikinn áhuga hjá. Þetta er allt á upphafsstigum en ég hlakka mikið til að vinna með Þór og hans fólki að því að byggja þetta upp. Sú hugsun og áhersla sem gengur gegnum allt starf Sjávarklasans um að auka virði sjávarafurða okkar með nýsköpun og þróun að leiðarljósi heillar mig mjög og ég tel mikil tækifæri þarna til að þróa þá hugsun áfram,“ sagði Ragnheiður.