„Sorglegt að þurfa að upplifa þessa lífsskerðingu sem fylgir þessu fyrirtæki“

Friðjón Einarsson, formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar, er ekki sáttur með lykt sem berst frá kísilverinu í Helguvík. Lyktarmengun spillti upplifun Friðjóns þegar hann naut útivistar á Hólmsvelli í Leiru í gærkvöldi.
 
„Fór í golf í gærkveldi í dásamlegu veðri, Leiran falleg að venju en verra var lyktin sem barst frá kísilverinu. Sorglegt að þurfa að upplifa þessa lífsskerðingu sem fylgir þessu fyrirtæki,“ segir Friðjón Einarsson, formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar í opinni fésbókarfærslu nú á tíunda tímanum. 
 
„Eftir magra mánaða vandræðagang virðist því miður ekki vera hægt að koma í veg fyrir þessi óþægindi fyrir íbúa,“ bætir Friðjón við.
 
Slökkt er á ljósbogaofni kísilvers United Silicon eftir óhapp sem varð í verksmiðjunni í nótt. Ekki er ljóst hvenær kveikt verður aftur á ofninum en það gæti orðið eftir einn til tvo sólarhringa. Þegar kveikt er aftur upp í ofninum má búast við lyktarmengun frá honum. 
 
Næstu tvo sólarhringa má búast við sunnan- og suðaustan-áttum í Reykjanesbæ.