„Mamma okkar er ofurhetja“

- Skyndihjálparkunnáttan bjargaði lífi eftir hjartastopp

Kunnátta í skyndihjálp kom sér vel þegar Bjarni Jón Bárðarson hneig niður í hjartastoppi á heimili sínu í fyrradag. Konan hans, Jóhanna Soffía Hansen, byrjaði þegar að hnoða hann á meðan hún hringdi í Neyðarlínuna eftir aðstoð. Jóhanna starfar hjá HS Veitum en fyrirtækið heldur reglulega öryggisviku þar sem starfsmenn fara m.a. á skyndihjálparnámskeið. Jóhanna hefur því í gegnum starf sitt hjá fyrirtækinu farið á nokkur skyndihjálparnámskeið og reynslan þaðan nýttist henni svo sannarlega á ögurstundu í vikunni.
 
Ásdís Birna Bjarnadóttir, dóttir Bjarna Jóns, greinir frá atvikinu á fésbókinni í gær. Hún skrifar: „Í gær gerðist það hræðilega atvik að pabbi minn hneig niður heima hjá sér, í hjartastoppi. Enginn fyrirboði, ekki neitt. Mamma var sem betur fer heima, þrátt fyrir að hafa átt að vera lōngu farin útúr húsi, og brást hárrétt við. Hún sá að hann var ekki að anda og sýndi engin viðbrögð. Hún byrjaði þegar í stað að hnoða hann á meðan hún hringdi í neyðarlínuna. Örskammri stund seinna var húsið fullt af sjúkraflutningamönnum, lögregluþjónum og lækni sem tóku við af mömmu að halda pabba mínum á lífi,“ segir Ásdís Birna.
 
Í fésbókarfærslunni segir Ásdís Birna fólki að setja kærleika og þakklæti í forgang. „Lífið er hverfult og við eigum að læra að njóta hverrar mínútu“.
 
Þakklæti er það eina sem kemur upp í hugann Ásdísar Birnu þegar hún hugsar um daginn þegar atvikið kom upp.
 
Hún segist svo þakklát fyrir skyndihjálparnámskeiðið sem mamma hennar fór á í vinnunni.
 
„Ég er svo þakklát fyrir að mamma skuli hafa þorað og getað brugðist hárrétt við án þess að hika. Ég er þakklát fyrir sjúkraflutningamennina sem voru komnir á 3 sjúkrabílum, eldsnöggt. Ég er þakklát fyrir lækninn sem var til taks á HSS og kom á staðinn. Ég er þakklát fyrir lögreglumennina sem komu og hugguðu okkur á meðan á þessu stóð. Ég er þakklát Lögreglunni í Reykjavík fyrir að loka gatnamótum til að koma honum sem fyrst á spítalann. Ég er þakklát læknum og hjúkrunarfræðingum á Hringbraut. En fyrst og fremst þá er ég svo þakklát fyrir að pabbi okkar er enn á meðal vor, og er það hetjunni móður okkar að þakka. Mamma okkar er ofurhetja,“ segir Ásdís Birna Bjarnadóttir en hún veitti Víkurfréttum góðfúslegt leyfi til að vitna í fésbókarfærslu sína.