„Fólk er slegið og stendur alls ekki á sama“

- segir Ellert Grétarsson um viðbrögð við myndum af framkvæmdum í Eldvörpum

Ljósmyndir af nýlegum framkvæmdum HS Orku í Eldvörpum hafa vakið gríðarlega athygli og viðbrögð nú um páskana. Ellert Grétarsson tók myndirnar með dróna á skírdag og setti á Facebook. Viðbrögðin létu ekki á sér standa og tveimur sólarhringum síðar höfðu nærri eitt þúsund manns deilt þeim áfram á Facebook og mikill fjöldi fólks sýnt viðbrögð við myndunum.
 
„Þessi gríðarlega sterku viðbrögð segja mér að fólk er slegið og stendur alls ekki á sama þegar svona náttúruníð á sér stað. Þau viðbrögð sem fólk sýnir er reiði og sorg,“ segir Ellert í samtali við Víkurfréttir. 

- En var þetta eitthvað sem gat komið á óvart í ljósi þess að leyfisferlið hafði farið fram löngu áður þar sem allir gátu kynnt sér málið og gert athugasemdir?

„Því miður er að oftast þannig að áður en að leyfisferlinu kemur er að búið að ákveða niðurstöðuna fyrirfram milli aðila, í þessu tilfelli HS Orku og Grindavíkurbæjar. Athugasemdir frá almenningi hafa því ekkert vægi í slíku ferli.  Auðvitað var löngu vitað að HS Orka ætlaði sér í þessar framkvæmdir en núna þegar veruleikinn blasir við áttar fólk sig betur á umfangi þeirra og áhrifum. 
 
Myndirnar sýna einungis eitt borstæði af þeim fimm sem deiliskipulagið gerir ráð fyrir. Við erum að tala um að þarna sé verið að slétta út nútímahraun á náttúruminjaskrá, sem á að njóta sérstakrar verndar samkvæmt náttúruverndarlögum, nánast ofan í gígaröð frá 13. öld,“ segir Ellert.
 
Í færslu Ellerts á fésbókinni vitnar hann í umsögn Skipulagsstofnunar um matsskýrsluna vegna framkvæmdarinnar en þar kemur fram að um sé að ræða „nokkuð umfangsmikið, óafturkræft rask á vel grónum, óröskuðum svæðum, m.a. mosagrónum nútímahraunum sem hafa ákveðna sérstöðu vegna fágætis á heimsvísu“. Þá taldi Skipulagsstofnun að áhrif framkvæmdanna á jarðmyndanir svæðisins yrðu „talsvert neikvæð“. 
Myndirnar sem Ellert birti með færslunni á fésbókinni á skírdag.