„Ég elska þig amma“

Sex börn eru í varanlegu fóstri hjá hjónunum Karen og Vilhjálmi í Garði.

Karen Jónsdóttir og Vilhjálmur Einarsson hafa um árabil tekið að sér fósturbörn. Þau búa á vinalegu býli, Akurhúsum í Garði, þar sem þau stunda nokkurs konar búskap með hestum, kindum og hænum. Umhverfið einkennist af fallegri náttúru og víðáttu nálægt sjónum. Hjá þeim dvelja sex börn og ungmenni, þar af 8 ára tvíburabræður og tvö systkini sem komin eru yfir tvítugt. Sjálf eiga Karen og Vilhjálmur stóra fjölskyldu sem einnig hefur myndað tengsl við fósturbörnin. 
 
 
Fóstursysturnar Thelma og Árný Inga reiðubúnar að aðstoða við sauðburð.  
 
„Það er fínt fyrir börn að alast upp með dýrum. Þó er hægt að fóstra börn hvar sem er. Það skiptir mestu máli að fólk sé góðar manneskjur,“ segir Karen. Börnin sem komið hafa til þeirra hjóna eru á ýmsum aldri. Tvíburabræðurnir voru tæplega fimm ára þegar þeir komu í varanlegt fóstur. Ég er með sex því ég er með svo gömul börn sem hafa ekki viljað fara. Tvö þeirra, þessi elstu, hafa eiginlega misst alla frá sér. Móðir þeirra, faðir, afar og ömmur eru öll látin. Þau eiga hálfsystur sem er kannski pínulítið í sambandi en þau eiga annars engan að. Þau fengu að vera bara áfram.“
 
 
Tvíburabræðurnir Arnar og Brynjar eru miklir fótboltakappar eins og þekktir nafnar þeirra. 
 
Hrós frá greiningardeild fyrir framfarir
Þegar tvíburarnir komu þurftu Karen og Vilhjálmur að kenna þeim nánast allt. „Þeir voru varla talandi, svo að við settumst niður með 1000 orða bækur og kenndum þeim hvað allt hét: stóll, borð og allt. Þetta var bara eins og að vera komin með ungabörn. Það þurfti að gera þetta á skömmum tíma til að ná því að þeir yrðu tilbúnir til að fara í skóla. Það gekk upp. Ég fékk heilmikið hrós frá greiningardeild fyrir framfarir hjá drengjunum og spurð að því hvort ég vildi taka fleiri,“ segir Karen og hlær. Hún bætir við að oft sé þetta ofboðsleg vinna, svona inni á milli, en þetta sé líka mjög gefandi. 
 
 
Falleg náttúra og heilnæm víðátta einkenna umhverfi Akurhúsa.
 
„Ég er mamma þeirra á meðan þau eru hér“
Spurð um þakklæti segist Karen vissulega líka finna fyrir því. „Það kemur stundum: ég elska þig amma! Það er svo krúttað því barnabörnin mín eru á svipuðu reki. Ég er að verða svo gömul að það er bara flott að vera amma þeirra.“ Einnig er hún búin að mynda sterk tengsl við eldri börnin því þau eru búin að vera talsvert lengi hjá þeim hjónum. „Hingað kom eitt sinn drengur sem var hjá okkur í ár. Hann var af góðu fólki og var vistaður tímabundið og það gekk vel með hann. Sá fyrsti sem var hjá mér býr núna í Danmörku og vinnur við að sminka leikara þar. Gengur mjög vel hjá honum. Svo hefur farið frá mér stelpa sem var alveg ótrúlega flott. Hún taldi sig tilbúna að fara, en málið er að ef börnin hafa ekki sterkt bakland þegar þau ætla að fara að búa, hafa ekki sterka fjölskyldu, þá getur þetta verið stórhættulegt. Þótt þau séu búin að vera hér í einhver ár, þá þurfa þau áfram aðhald og fjölskyldu sem styður við þau. Ég er mamma þeirra á meðan þau eru hér.“ 
 
 
Fóstursystur saman komnar við kaffihlaðborð á eftirmiðdegi. 
 
Þyrfti stundum að grípa fyrr inn í
Karen segir að engin börn séu vistuð eða tekin af heimilum nema eftir margar tilkynningar til barnaverndarnefnda. „Því fyrr því betra segi ég, því ef vandamál eru til staðar, t.d. námslega séð, þá getur verið seint að grípa inn í þegar þau eru orðin eldri. Ég hef oft hugsað út í að það hefði verið hægt að gera miklu meira fyrir sum börn ef gripið hefði verið fyrr inn í.“ Tilgangur með vistuninni sé alltaf bættari líðan barnanna. „Börn sem dvalið hafa hér hafa fengið sálfræðiaðstoð því eðlilega er ýmislegt að brjótast um í börnum í þeirri stöðu að eiga veikt foreldri og þurfa að fara að heiman. Þeim hefur verið hjálpað mjög mikið og presturinn er líka til staðar ef áföll eins og dauðsföll verða meðal aðstandenda þeirra.“
 
 
Stórt tún er við Akurhús þar sem auðvelt er að hlaupa um með bolta. 
 
Kemur fram við þau eins og sín börn
Spurð um hvað mikilvægast sé að fósturforeldrar hafi að bera segir Karen að þegar þau hjón ákváðu að gera þetta í upphafi ákváðu þau í leiðinni að koma fram fósturbörnin eins og sín eigin börn. Nota þær reglur og hefðir sem þau notuðu í uppeldi barna sinna. „Það gekk vel með mín börn og við komum þeim ágætlega til manns. Maður verður svo bara að vera vel inni í hvað er í gangi hverju sinni. Fara með þeim inn í hlutina. Þau koma svo bara inn í mynstrið hér og það getur tekið tíma að aðlagast því og þau róast smátt og smátt. Þetta tekur eðlilega tíma.“ Vilhjálmur starfar í Sandgerði en Karen sér um allt heimilishald og er til staðar fyrir börnin. Aðspurð hvort þau hafi aldrei hugsað með sér: jæja, nú er þetta komið gott, nú hættum við þessu, hlær Karen og segir að stundum verði þetta mjög erfitt. „Þá verður maður líka að hlaða batteríin einhvers staðar annars staðar.“ 
 
 
Karen er aldrei langt undan og er vakin og sofin yfir bræðrunum. 
 
Fá að dvelja eins lengi og þau vilja
Karen og Vilhjálmur halda sambandi við ungmenni sem hafa dvalið hjá þeim í tímans rás.  „Þau droppa stundum við í heimsókn en við erum aðallega í sambandi á Facebook. Það er mjög gefandi að finna hversu mikið hægt er að styðja þau og að hafa skipt máli í þeirra lífi. Það er erfitt að leyfa öðrum að komast að hjá okkur því þau sem eru hér vilja ekki fara,“ segir Karen brosandi og bætir við að þau elstu séu reyndar búin að kaupa sér íbúð og komið sé fararsnið á einhver þeirra. Þau megi dvelja eins lengi og þau vilja. 
 
Öll börn eiga rétt á góðri umönnun
Karen hvetur fólk sem hefur áhuga á að vista börn að láta endilega á það reyna. „Börn eru í vistun vegna ýmiss ástæðna sem ekki eru endilega þeim að kenna. Þetta eru persónur eins og við sem eiga rétt á góðri umönnun. Það þarf bara að kenna þeim á lífið, spjalla, hlusta og útskýra. Auðvitað hlýtur að vera skrýtið fyrir þau að koma inn á annað heimili en það hefur aldrei komið fyrir hjá mér að barn hafi ekki viljað vera hér. Það er frekar að þau segist ekki vilja fara.“ 
 
VF/Olga Björt  
Myndir: Hilmar Bragi og Olga Björt.