Vita á veðrið

Ég upplifði vorið í París. Í huganum. Ákvað að nýta mér síðbúið sumarorlof frá liðnu sumri og fljúga suður. Óvenju snemma. Tilboðið í sólina var alltof gott til að sleppa því. Pantaði í febrúar. Aðgangur að sumarhúsi á sunnanverðum Spáni. Ferðamannatíminn langt frá því genginn í garð. Fjölmargir Íslendingar sem dvelja þar langdvölum í húsunum sínum og njóta efri áranna. Fátt sem minnir á fyrirheitna landið á þessum tíma. Ströndin auð og fjöllin af sandi, sem dráttarvélarnar hafa skafið í skafla undanfarna daga, benda til þess að undirbúningur sumarsins sé á næsta leiti. En bingirnir munu niður falla og breytast í hvítan sand þegar þar að kemur.

Ég finn tærnar brenna og sandinn sitja fastan á milli þeirra á víðfeiminni strandlengjunni. Bít á jaxlinn og skoppa um eins og smákrakki í leit að skugga. Niður að sjó. Kæli rósrauðar iljarnar í svölum sjónum. Hafið lyktar af einstæðum ilmi, sem enginn fær skilið nema sá sem það upplifir. Engin þarabræla eða þúsaldarlykt. Einstæð miðjarðarhafsalda skvettir sér á næpuhvítan Íslending, eins og ekkert sé sjálfsagðara. Ég læt mig fljóta um og held í mér andanum. Flýt eins og korktappi í miðju ballarhafi. Aldan hrífur mig og skolar mér á land eins og láréttri Bond gellu. Strandbarinn bíður með einn ískaldan og freyðandi. Cerveza, por favor!

En þetta er bara draumsýn. Draumsýn um skínandi sól og brakandi þurrk. Sólgleraugu og sólarvörn. Það bara gerist ekki þannig í apríl. Alla vega ekki núna. Hér rignir eldi og brennisteini og sannast sagna er ekki hundi út sigandi. Hundur nágrannans stígur ekki fæti út á veröndina. Heldur sig undir súð. Hér míglekur um allt. Niðurföllin hafa ekki undan og bílarnir freyða regnvatninu frá sér eins og skútur á siglingu. Maurarnir hnipra sig saman í holurnar og láta ekki glepjast af fengsælum matarbitum á ferð sinni um árfarvegi ofankomunnar. Regnhlífarnar seljast eins og heitar lummur í Kínabúðinni. Siggi Stormur, formaður félags húseigenda á Spáni, er auðsjáanlega ekki í náðinni hjá Kára veðurkonungi.

Ég gjói augunum út um gluggann á sjötta degi. Í von um birtu og yl. Læsi hrömmunum í  gluggarimlana og skek þeim í bræði minni. Rammgerðir andskotar, nánast í hverju húsi. Hver rimillinn á fætur öðrum. Mér líður eins og fanga í eigin áráttu. Árans veðráttu öllu heldur. En það er vonarglæta framundan. Sólarglæta. Já, það er alltaf von í kortunum. Hjálpaðu mér, sólargyðja!