Verðtryggð viska

Taktu þátt í spennandi hlutabréfaleik, þú hefur engu að tapa.....allt að vinna! Mér hreis hugur við tilhugsunina um að fjörið væri að byrja aftur. Er virkilega verið að æsa upp hungrið í lýðnum? Nema hvað það eru allir vasar tómir þessa dagana og engin lán í boði. Spariféð uppurið og liggur hjá kröfuhöfunum. Fæst ekki aftur gegn veði í hlutabréfum. Gott. Verðtryggðu lánþegarnir bíða spenntir eftir afskriftum. Voru nógu afturhaldssamir til þess að taka ekki áhættu í gengistryggingunni. Slæmt. Langaði bara ekkert til þess að taka þátt í þessari vitleysu. Nema í bílalánunum. Svo helvíti hagstæð. Á meðan gengið var kolvitlaust. Í hina áttina. Bíllinn dæmdur gamall. Þriggja ára.

Það var hugur í settinu að minnka við sig. Reyndar aðeins of snemma en hvað um það. Alltaf til í að reyna eitthvað nýtt. Seldum alltof stórt hús og keyptum alltof lítið í staðinn. Milligjöfin hugsanlega nýtt til þess að greiða niður skuldir. Afbrigði af gamla skólanum árið 2004. Ég hugsaði mér gott til glóðarinnar í góðærinu og kíkti inn á hlutabréfamarkaðinn. Renndi hýru auga á bankana þrjá og flugbransann enda svifu flugvélar yfir þökum. Fóru alltaf í loftið og komu reglulega heim. Stútfullar af farþegum. Ekki hægt að tapa á svoleiðis bransa. Með fjórar milljónir í vasanum. Hafði aldrei haldið á svoleiðis fúlgu. Nema þegar ég fór með sparimerkjabókina undir hendinni og leysti þau út fyrir fyrstu íbúðinni. Hundrað þúsund kallar þá.

Hjartað tók aukaslög í samræðum við Sparibankann. Sölumaðurinn taldi mig veðja á réttu hestana. Veðhlaupið í algleymingi. „Þú veðjar á þá spretthörðustu,“ sagði hann sallarólegur á meðan hann millifærði hverja milljónina á fætur annarri inn í sölukerfi hlutabréfakerfisins. Ég kom heim sveittur í lófunum og tilkynnti frúnni að ég væri búinn að þessu. Ekki hægt að tapa. Græði miklu meira en sem nemur vöxtunum af lánunum, sem til stóð að niðurgreiða. Nóttin áhyggjulaus en órói innra með mér. Hvað ef allt fer nú fjandans til. Nei, gröfin stefna öll í eina átt. Upp.

Magapínan hófst við fyrsta hanagal. Bréfin lækkuðu á fyrsta degi og sveifluðust næstu daga. Upp og niður. Innyflin tóku sömu dýfur. Fréttir af frábærum uppgjörum „háeffanna“ gerðu ekki annað en að minnka virði þeirra. Andskotinn, ég nenni þessu nú ekki. „Viltu vinsamlega selja þetta allt, strax!“ Betra að uppfæra innbúið og kaupa bíl fyrir afganginn. Verðtryggðu lánin halda sér svo vel. Er það ekki?