Vargur í fuglahjörð

Stemningin var góð fyrir föstudagskvöldinu. Dansleikur í samkomuhúsinu í Sandgerði og komið að Tóta að keyra. Vaktafrí alla helgina og þúsundkallarnir í vasanum tóku af allan vafa um að helginni væri borgið. Elskaði útborgunardaga. Rúnturinn tekinn snemma upp og niður Hafnargötuna. Við félagarnir köstuðum upp á hvort upphitunin yrði póker eða partí. Raðirnar í Ríkinu bentu til þess að fleiri væru að hugsa um að mæta á ballið suður í Sandgerði. Bjössi afgreiddi okkur ungliðana fumlaust en hafði allan varann á sér og spurði um nafnskírteini. Plastað og stimplað af sýslumanni. Nafnnúmerið 9154-4156 fékk afgreiðslu um hæl enda töffarinn nýskriðinn yfir aldursmörkin. Með sítt að aftan og axlapúða. Næturlíf framundan.

Morguninn eftir er bankað kröftuglega. Timburmennirnir óvenju snemma á ferðinni. Þrjú þung högg til viðbótar dynja á kjallaraglugganum. Úti fyrir stendur veiðimaður í kanaúlpu. „Drullaðu þér á fætur, aumingi!“ Morgunskíman á Klapparstígnum skaut mér skelk í bringu. Drápssvipurinn á þeim höggþunga hjálpaði ekki til. Minnugur samkomulagsins frá næturbröltinu stökk ég staðfastur upp úr rúminu. Heilabúið fylgdi í humátt á eftir. Þyngra en vanalega. Lopapeysan umvafði mig hlýju og tók úr mér mesta skjálftann. Gamla einhleypan á sínum stað. Tók hana í leyfisleysi. Haglaskot í mörgum litum. Grátbað um að stoppa á Aðalstöðinni. Samloka, kók og prins í lúgunni. „Já, takk, opn‘ana og kaupa glerið.“

Stefnan tekin á Snorrastaðatjarnir. Framundan löng og erfið ganga um hrjóstrugt Grindavíkurhraun. Fagradalsfjall blasti við milli Skógfellanna. Virtist ekki langt í burtu. Skrefin þung og óþjál. Hraunnibburnar hættulega lausar í sér og reyndu á þolrifin. Og ökklana. Hefði auðveldlega getað horfið niður um einhverja gjána sem leyndist undir mosanum. Skimaði eftir fugli í velþeginni hvíld á grjótþýfinu. Nestislaus. Hvítar þústir í fjarska. Fáar en fallegar. Þorstinn farinn að segja til sín. Veiðieðlið óþægindunum yfirsterkara og fyrr en varði var ég kominn í skotfæri. Fyrsta bráðin í sigtinu. Hvarf handan við hæðina. Læddist upp aftur. Öryggið aftengt. Skotið ríður af. Fyrsta og eina.   

Höglin hæfðu haus og háls. Blóðið vætlaði úr fengnum inn í rennvotan vettlinginn. Heitt og klístrað. Úrkoman rataði ekki rétta leið á tungubroddinn. Risið orðið lágt í haustdrunganum og ganglimirnir að gefa sig. Birtu að bregða. Verð að komast í vatn. Einhvern vökva. Svimi. Sorti fyrir augum. Á fjórum fótum síðustu metrana að bílnum. Kastaði mér á regnvota vélahlífina. Sleikti hana í angist. Með rjúpu í hendi.