Toppurinn á tilverunni

Ég fékk loksins tækifæri á því að efna loforðið mitt frá því í fyrra. Að bjóða heim. Útlendingi. Þessi líka fádæma ljúfi piltur sem þáði boðið. Dugði ekki dagur eða vika. Mánuður eða ekkert. Vertu velkominn minn kæri. Nóg að gera að sýna honum herlegheitin. Landið mitt Ísland tekur vel á móti öllum. Einstök náttúra og hrjóstrug. Hljótum að fá eins og eitt stykki eldgos til að standa undir væntingum. Hann sagði að það mætti alveg sleppa því. Hafði aldrei stigið upp í flugvél á ævinni. Foreldrarnir ekki heldur. Ætluðu að geyma það í bili. Spenningurinn því mikill fyrir litla fjölskyldu á Norður-Spáni að senda örverpið til eldfjallaeyju í ballarhafi. Byrjuðu að pakka fyrir hann mörgum vikum fyrir brottför. Sendu hann með nesti með sér. Og til okkar líka.

Honum þykir fullbjart á nóttunni. Sefur þó eins og ungabarn. Rólegt og þægilegt í Njarðvíkunum. Sérstaklega eftir að loftrýmisgæslunni lauk. Langar að skoða höfuðborgina og mannlífið. Bíður spenntur eftir því að komast í Bláa lónið. Það þekkja það allir. Svo segir hann. En frúin hafði önnur áform fyrir hann. Út í sveit með drenginn. Pantaði sumarhús hjá verslunarmannafélaginu og fékk úthlutað á Flúðum. Best að bjóða honum gullna hringinn fyrst. Suðurlandið fullt af tækifærum. Fengum hann varla í burtu frá Seljalandsfossi. Sund og heitir pottar í algjöru uppáhaldi. Lofaði almættið með útbreiddan faðm þegar hann prófaði pottinn í sumarhúsinu. Fannst það toppurinn á tilverunni. Á miðnætti í miðnætursól og birtu. Það sem okkur finnst einhvern veginn svo sjálfsagt, á hann ekki til orð yfir. Ísland er einstaklega rómantískt.

Veðrið hjálpar til við upplifunina. Hann vaknar að morgni í sól og blíðu. Hitinn nálægt 18 gráðum. Um hádegið dregur fyrir sólu og fer að blása. Skýin einstaklega dimm og fyrr en varir dynja haglélin á pallinum. Vara í korter. Í eftirmiðdaginn dettur allt í dúnalogn og flugurnar fara á kreik. Fuglalífið tekur undir með tónelsku ívafi. Grillað íslenskt lambakjöt og spænskt rauðvín mettar sísvangan sveitapiltinn. Vill jógúrt í eftirrétt. Heimtar að fá að vera lengur. Framlengir í hálfan mánuð í viðbót.
Þjóðhátíðardagurinn heillaði líka. Sjá allt fjörið. Sendur á bílnum í bæinn og við hjónin skilin eftir. Í sveppabænum. Líður eins og í stofufangelsi. Komumst ekki lönd né strönd. Bíllaus. Reimaði á mig skóna í morgun og fór í göngutúr. Frjáls eins og fuglinn.