Tjaldið fellur

Í gegnum árin hafði Ungó staðið upp úr sem aðalstöð næturlífsins í bænum. Eldra fólkið fussaði og sveiaði yfir djammi dætra sinnar og tilvonandi tengdasona og að sjálfsögðu gilti þetta einnig um synina og tengdadæturnar. Engu að síður slettu margir hverjir úr klaufunum í fyrsta skiptið á þessum stað. Klæðnaðurinn var úr ýmsum áttum og í þeim efnum lét karlpeningurinn sitt ekki eftir liggja frekar en kvenfólkið. Strákarnir skunduðu í klæðaverslun BJ og létu Guðmund Brynleifs sníða á sig sparigallann en kvensurnar mættu uppdubbaðar úr Kyndli til þess að sýna sig og sjá aðra. Í skótauinu sáust yfirleitt spegilglansandi Gefjunarskór eða vellímdir pinnahælar frá skósmíðaverkstæði Sigurbergs, en þar á bak við Alþýðubrauðgerðina voru ófáir hælarnir límdir eftir dansátök helgarinnar. Já, uppsveiflan í músíkinni var mikil og mannlífið tók undir í háværum tón og iðandi dansi.

Það má segja að innandyra hafi varla væst um nokkurn mann, því staðurinn var þó nokkuð stór og plássið allnokkru betra en búast mátti við. Í fyrsta lagi var rými fyrir þá sem vildu sitja og kjafta með velrispuð eldhúsglösin full af dýrðarinnar veigum. Í öðru lagi sérlega stórt dansgólf þar sem hliðar saman hliðar sporin nutu sín til fullnustu. Í þriðja lagi ágætlega útbúið eldhús á bak við, einnig lítill samkomusalur uppi og sýningarherbergi og að endingu var það hljómsveitarsviðið, sem reyndar nýttist einnig til uppsetninga á leikritum, ja allavega svona endrum og eins. Leiktjöldin voru dimm og settu drungalegan svip á þetta annars sérkennilega og fagurmálaða samkunduhús.

Það var ekki einungis krassandi næturlíf í Ungó um hverja helgi, heldur og voru haldnar ófáar skemmtanir fyrir okkur krakkana og jólaböllin voru hreint út sagt ómissandi í alla staði. Þó nokkur leikrit voru sett upp af félagasamtökum í bænum og ef til mikillar lukku var hægt að fá Jóa Dag til að taka þátt í þeim, þá gerðust þau vart betri. Hann var hreint undraverður í leik sínum og virtist geta leikið allan fjandann. Að öllum öðrum ólöstuðum stóð hann upp úr í leikarastéttinni, hvort heldur það var á hæðina eða í gríninu. Fyrir mér var hann nokkurs konar Bessi Bjarna Suðurnesja, því hláturtaugarnar lágu heima sem lamaðar í heila viku á eftir.

Það syrti í álinn þegar við fréttum að hann væri á leiðinni til útlanda og léki ekki meira í bráð. Hver átti eiginlega að koma í staðinn? Við spurðum okkur þessarar spurningar örugglega þúsund sinnum eða allt þar til Gísli B. Gunnarsson kom til skjalanna og hrifsaði okkur út úr leikaraleitinni, sem valdið hafði okkur langvarandi leiðindum. Hann bjargaði okkur blessunarlega frá því að tjaldið félli endanlega.

En nú er ég búinn að skrifa miklu meira en ég ætlaði mér. Til stóð í upphafi að skrifa tíu eða tuttugu pistla í bæjarblaðið en þessi telst víst númer hundrað. Ég held að mál sé að linni og ég láti þennan pistil verða svanasönginn minn. Í bili allavega! Ég hef leitt lesendur á flakki mínu um landsins lendur jafnt til austurs, vesturs, norðurs og suðurs. Flogið með ykkur til Evrópu og Ameríku, andskotast í bæjar- og landsmálapólitík, rifjað upp fyrir ykkur örsögur úr æsku, opnað fyrir ykkur heimilið og bílskúrinn, að ógleymdum helsta skotspóni og bakhjarli, frúnni sjálfri. Ég vona samt að ég hafi ekki móðgað nokkurn mann á þessu brölti, enda hafa viðbrögðin verið að öllu jöfnu afskaplega ánægjuleg. Kveð ykkur að sinni kæru lesendur og þakka ykkur öllum leyfið til þess að sprella aðeins með ykkur á undanförnum árum.