ÞRÖSTUR HJÖRTUR

Við erum alls ekki nógu vakandi yfir prýði strandanna umhverfis okkur og því sem hafið ber með sér að landi. Það er með ólíkindum að frumkvöðullinn í strandhreinsunum þurfi sífellt að vera að minna okkur á í þeim efnum. Eftir að Kalka fór að innheimta fyrir förgun á því sem við viljum losa okkur við úr skúrnum eða af heimilinu, sjáum við nú fjölmörg dæmi um losun úrgangs á víðavangi eða þar sem við viljum ekki sjá heimilisrusl. Ekki furða að við viljum sýna útlendingunum norðurljósin. Þeir horfa ekki niður á meðan.

Það eru samt margir fallegir garðar á Suðurnesjum. Hafa blómstrað hin síðari ár og trjágróðurinn margfaldast að umfangi. Gaman að taka rúntinn á sunnudögum og sjá hvað fólki er almennt annt um góða umhirðu og stolt umhverfisins. Þetta er til mikils sóma á flestum bæjum en alltaf eru einhverjir sem mættu huga betur að híbýlum sínum. Bæjaryfirvöld hafa tekið stórstígum framförum í umhverfisvernd og gróðursett töluvert. Blómabeðin blessunarlega látin í friði. Bæirnir skarta á miðju sumri sínu fegursta með litríkum laukum og trjám. Lofsvert að halda þessu starfi áfram.

Á mínu heimili eru rúmir tuttugu faðmar af beðum á bak við að ótöldum lággróðri á framhlið. Enginn verðlaunagarður en mér þykir ákaflega vænt um bleðilinn. Svo hentug stærð að eiga við og auðvelt að sjá afraksturinn í lok dags. Bletturinn nægilega stór til þess að eiga sláttuvél og finna grasilminn á eftir. Næring sem vekur upp ljúfar minningar af samneytinu við Gussa sláttuþræl. Hrífa, skófla, línuband, kantskeri, túngaffall, greinaklippur, vettlingar og verkgleði. Sat fyrir skömmu í vorsólinni og dundaði mér í beðunum og moldinni. Hugarástandið í góðu jafnvægi. Súrefnið og útiveran nærðu það enn frekar. Tengdó fylgdist með af áhuga á milli þess sem hún hristi motturnar eins og enginn væri morgundagurinn. Hefur einhvern tímann tekið til hendinni í sömu aðstæðum.

Í lok marsmánaðar fæ ég undantekningalaust góðan gest í heimsókn. Á fræðimálinu nefndur Turdus iliacus. Vekur okkur heimilisfólkið með fuglasöng alla sumarmorgna. Það eru forréttindi að búa við slíkan munað í þéttbýlinu. Nú var hann mættur og stóð aldrei meira en armslengd frá mér. Stökk á milli visinna trjástofna og söng fyrir mig í beðunum. Horfði á mig róta og hreinsa til, lét einn og einn smámaðk renna ofan í sig en lét þá stóru vera. Ætlaði að geyma þá til varptímans. Ég bauð hann hjartanlega velkominn. Ljúflingurinn var nefndur Þröstur Hjörtur.