Þegjandi þörf

Ég settist í grasið og hlustaði á þögnina. Algert hljóðleysi ríkti á bakkanum og kyrrðin róaði hugann. Leiddi mig burtu frá amstri og ánauð hversdagsins. Áin liðaðist sinn venjubundna farveg niður til sjávar. Nokkrir tittir létu á sér kræla í yfirborðinu og soguðu til sín bitastæðar flugur. Mér fannst ég hafa himin höndum tekið. Tuggði strá í hraungrýttri náttúrusköpuninni réttum tvöhundruð og þrjátíu árum eftir Skaftárelda. Móðuharðindin, ein mestu harðindi sem dunið hafa yfir Íslendinga og þau mannskæðustu, grúfðu yfir stað og stund eitt augnablik. Og ég sem hélt að landinn ætti bágt.

Það er samt þegjandi samkomulag í umhverfinu öllu. Mikilvægasti þáttur samfélagsins virðist þegja eins og steinn á meðan þegnarnir þegja þunnu hljóði. Þögnin í bönkunum samfara þögninni í stjórnmálunum reynir verulega á þolinmæðina. Ef til vill er verið að herða sultarólina líkt og í móðunni forðum. Í dag er það gert á nútíma vegu. Sá þó ljósið fyrir skömmu þegar endurreisnin, sem á nútímamáli kallast endurútreikningur, barst inn um bréfalúguna. Móðunni létti að einhverju leyti og það var sem ég hefði endurheimt fé af fjalli. Ígildi lífvænlegs viðurværis. Langlundargeðið tók stakkaskiptum. Það er þá líf í glæðunum eftir allt saman.

Þögnin hefur margskonar merkingu í samfélaginu okkar. Í umræðunni merkir hún hlutleysi eða afstöðuleysi. Í daglegum samskiptum manna í millum getur hún merkt áhugaleysi eða jafnvel lævísa stjórnsemi. Það skyldi þó ekki vera málið að menn iðki svoleiðis íþróttir? Yfirborðskenndir útsendarar yfirvaldsins aumka sig yfir lýðinn, sem þjáist af streitu eftir útrásina. Hálfgert innvortis ástand. Það er þó alltaf freistandi að segja sem minnst. Fæst orð bera minnsta ábyrgð. Þeir hljóta að hafa lært þetta einhvers staðar. Kannski hjá erlendu kröfuhöfunum? Taflborðið alsett fórnfúsum peðum sem lögð eru í hrókeringum auðvaldsins.

Manneskjan er sjálfri sér nóg á meðan húsaskjóls nýtur. Nauðþurftir koma á eftir. Verst ef hún hefur engar væntingar til hins ytra. Trúin á réttlætið heldur þó lífi í voninni. Við erum fleiri en þið haldið. Innst inni erum við öll samherjar. Þeir sem hanga á bláþræði munu sigra að lokum. Það er ljós við enda ganganna. Ég lofa ykkur því. Það er nefnilega ekki svo, að þögnin sé full af engu. Á bak við tjöldin er verið að vinna á fullu. Alveg fullviss um það. Ekki hugsa öllum þegjandi þörfina. Lærið frekar að njóta þagnarinnar á sem flestan hátt. Það styrkir sálartetrið og úthýsir veraldlegum vandamálum að hlusta á sína innri þögn.