Það er lurkur

Árið byrjaði ekki gæfulega. Hef verið blessunarlega laus við veikindi, flensu og annan skít í nokkuð drjúgan tíma. Yfirlit síðastliðinna tíu ára sýna einungis fimm skráða veikindadaga. Það þýðir aðeins hálfur dagur á ári að meðaltali. Og ég sem hélt ég væri bara meðalmaður. Tek meðulin helst ekki nema brýna nauðsyn beri til. Neita að fara í flensusprautu. Læt B-vítamínið duga til að halda við hárvextinum. AB-mjólkin sér um meltinguna og frárennslið. Sjónin þó sífellt að daprast. Nema styrkurinn í gleraugunum sé að minnka. Haldið þokkalegum dampi í öðru. En svo kom að því. Alveg upp úr þurru.

Nýbúinn að slökkva á síðustu kertunum og lagstur til hvílu á nýárinu, þegar ég fann hana koma. Skítapestin bankaði upp á. Þurr í kverkunum, jafnvel eftir ágætis vökvun fyrr um kvöldið. Ég sveif inn í draumalandið og beið spenntur eftir ræðu forsetans við fyrsta hanagal. Upp úr hádegi. Svaf óvenju lengi og missti af henni. Sennilega dofinn af veirunni. Fann það samt, þegar ég drattaðist loks á fætur, að ég var klár í uppvask, tiltekt og skúringar. Hvað, þetta hefur ábyggilega bara verið ímyndun. Á öðrum degi ársins komu áhrif kvikindisins í ljós. Bassarödd og beinverkir. Og ég að fara í útför í Hvítasunnukirkjunni. Mun auðveldara að syrgja en að syngja.

Steinlá næstu fjóra daga á eftir og fann mér lítið til dundurs í depurðinni. Alltof heitt en samt svo kalt. Reifaður við skjálfta og vosbúð. Ákvað að klára að lesa bækurnar sem ég fékk í jólagjöf. Arnaldur lesinn í áföngum. Ekkert sérlega spennandi rónasaga. Hélt mér illa við efnið. Var kannski ekki í stuði fyrir efnisþræðinum. Harkaði af mér með rjúkandi kaffitári og Mackintoshi úr Fríhöfninni. Snubbótt endalok spennukóngsins kölluðu á að ég opnaði nýja. Hélt ég ætti ekki annað eftir en að lesa viðlíka ævisögu. Ekkert annað við að vera í eymdinni minni en að lesa um Gísla á Uppsölum.

Bókin kom mér þægilega á óvart. Auðlesin og fræðandi. Lífshættir fyrir hundrað árum eru fjandi   áhugaverðir. Eða hvað? Bústörfin að vísu ekki tæknivædd en eineltið nútímavæddara. Af því að drengurinn var öðruvísi en aðrir. Fylgdi honum í gegnum æskuna og ungdóminn. Og við sem héldum að við hefðum lært eitthvað! Varð lítt ágengt í ástarmálum þrátt fyrir elju og dugnað. Dró sig í hlé og gaf umheiminn upp á bátinn. Lurkum laminn til eilífðarnóns. Mannbætandi lesning í kverkaskít nútímans.