Teygja lopann

Mig vantaði tilfinnanlega hlýja peysu með mér í rakann og kuldann suður á Spáni. Hver fer með svoleiðis með sér til sólarlanda? Ekki ég. Datt það ekki í hug. Mér var samt hugsað til lopapeysunnar og flíspeysanna heima í skáp þegar ósköpin dundu yfir. Íslensku ullarinnar, sem tengdó prjónaði handa mér fyrir nokkrum árum. En svo mundi ég það allt í einu. Ég gleymdi peysunni á ættarmóti síðastliðið sumar. Að ég held. Kannski fékk einhver hana lánaða. Í svölu grillveislunni á Arnarstapa. Hlý og góð. Svört með hvítu tíglamynstri. Hneppt.

Ekta lopaveður þessa dagana. Meira að segja Hómer Simpson klæddist einni slíkri um helgina. Ameríka horfði dolfallin á heimilisföðurinn frá Springfield og vini hans skarta alíslenskum prjónapeysum í litadýrð norðurljósanna. Ég minntist á týndu skikkjuna mína við frúna og fullvissaði hana um að sumarið yrði ekki samt ef engin væri lopapeysan. Ómissandi á síðsumarkvöldum. „En flísin kemst ekki í hálfkvisti við íslenska lopann“ svaraði ég um hæl, þegar hún tíndi út Didriksons, Regatta og 66° Norður peysurnar í öllum litum út úr fataskápnum mínum. Ég yrði að sannfæra hana, jafnvel þó fingurnir og úlnliðirnir væru slæmir. Árans gigtin.

Árið 1986 álíka stórt á íslenskan heimsmælikvarða eins og skákeinvígi Fishers og Spassky fjórtán árum áður. Leiðtogafundurinn hjá Regan og
Gorbatsjov í hámælum. Umheimurinn snýst um Reykjavík og Ísland.  Landinn ekki séð jafnstóra heimspressu í háa herrans tíð. Minjagripir seljast eins og heitar lummur. Íslenskur lopamarkaður í blóma. Fluttur út vikulega í tonnavís með flugi. Ingvi Hrafn malar klukkutímunum saman með sjónvarpsvélarnar límdar á útidyrahurðinni í Höfða. Álafoss lopaverksmiðjan ein af mörgum sem sér gull í gestakomunni. Ákveða að prjóna lopapeysur í anda leiðtogafundarins. Mæja vinkona og starfskraftur kynnir hönnunina. Vekur óskipta athygli. Skömmu síðar er ég myndaður alsaklaus fyrir utan Héraðsdóm Reykjavíkur í Álafoss lopa. Alhvítri tískupeysu með svartri V-línu. Án mynda af forsetum stórveldanna. Peysa vikunnar í Vikunni.

Ég setti mig í gamalkunnar stellingar fyrir frúna. Ekki með sítt að aftan lengur. En með stút á munni. Hún stóðst ekki mátið. Keypti prjónablað um hæl. Við völdum sameiginlega munstur númer þrjú. Litirnir dökkblár, ljósblár og hvítgrár. Prjónafesta 13L og 18 umferðir slétt prjón á hringprjóna númer sex. Bolur, ermar og axlastykki prjónuð í hring. Stroffið slétt og brugðið, endurtekið. Hálslíning með minni prjónum. Frágangur afskaplega einfaldur. Ganga vel frá öllum lausum endum. Lykkja saman undir höndum. Sé fram á að teygja lopann í sumar.