Súrt og sætt

Það hlaut að koma að því að skýrslan um Sparisjóðinn læki út á netið. Einkennilegt að lesa eitthvað sem stimplað er trúnaðarmál í bak og fyrir. Sennilega ekki tekið til greina hjá þjóðfélagi í endurreisn. Ennþá merkilegri þykir mér þó deyfðin í samstöðunni eða samtökunum sem kröfðust birtingar skýrslunnar og höfðu engu áorkað fram að því. Það hefur hvorki heyrst hósti né stuna frá þeim í kjölfar birtingarinnar. Ef til vill er verið að bíða eftir næstu skýrslu frá rannsóknarnefndinni eða safna fyrir málaferlum. Ég hafði undirbúið mig rækilega að hverfa burtu úr bænum eða jafnvel til útlanda, þegar og ef skýrslan birtist. Gerði ráð fyrir götuóeirðum og djöfulgangi fólks í kjölfarið, berjandi potta og tunnur um allan bæ.

Ekki ætla ég að setja mig í dómarasætið. Það verður einhverra annarra að hlamma sér í þann grafreit. Lesturinn er þó langt frá því að vera einhver skemmtilesning. Ég vona svo sannarlega að það séu viðeigandi skýringar á vitleysunni. Lánasamningar uppá hundruð milljónir króna gefnir út án nokkurra haldbærra veða, nema í stofnbréfunum sjálfum. Starfsmenn sparisjóðsins í sveitarómatíkinni á Hvammstanga voru þeirra á meðal og það gilti einu hvort það var þjónustufulltrúinn eða símastúlkan. Makarnir fengu einnig að taka þátt í gerseminni. Engin leið að greiða tilbaka ef eitthvað brygði út af. Útlán og afskriftir í öllum regnbogans litum. Gekk heilbrigt fólk af göflunum í gósentíðinni?

Eftir að fjármálaráðherra skellti í lás á Tjarnargötunni hafa unglingarnir okkar þurft að taka sér tak í að selja klósettpappír, harðfisk eða hvaðeina til að standa undir íþróttaiðkuninni. Gífurleg aukning hefur orðið í styrkbeiðnum til að standa undir meðbyr unga fólksins á íþrótta- og menningarsviðinu. Það munar um minna fyrir þessa hópa þegar stór styrktaraðili, sem Sparisjóðurinn vissulega var, hverfur af sviðinu og bolmagnið hjá þeim sem eftir stóðu uppréttir, var sem dropi í hafið.

Ný stoð hefur blessunarlega loks risið í þessum málefnum eftir langvarandi þurrka. Kaupfélag Suðurnesja, gamalgróið en gróskumikið fyrirtæki, hefur blásið til sóknar. Stefnir stórhuga að því að styðja og styrkja undirstöðurnar í íþrótta- og menningarlífi svæðisins. Nú verðum við líka að muna og virða það sem gert er fyrir mannlífið og snúa viðskiptum okkar í ríkari mæli til þeirra sem sýna okkur velvilja í garð afkomendanna. Og ekki bara þeirra stórtæku, heldur og til hinna smærri, sem af veikum mætti hafa sýnt málefninu skilning í gegnum súrt og sætt. Virðing og manndómur er eina skilyrðið.