Stjörnublik í augum

Þetta var svaka hvellur. Einn af þeim allra stærstu. Gúmmímotturnar, sem grafan hafði lagt yfir hálfuppgrafna götuna, lyftust í sprengingunni. Þær voru gerðar úr útflöttum risahjólbörðum og festar saman með keðjum. Við guttarnir horfðum hugfangnir á og biðum færis. Vírarnir úr dínamítinu lágu eins og hráviði um allt og nú þurftum við að hafa hraðar hendur þegar kallarnir fóru í kaffi. Aðalgatan var sem opið sár allt frá Hafnargötu upp að Hringbraut. Eins og djúpur dalur í miðju bæjarins. Tjörubornir viðardrumbar lágu yfir ræsisdýpið á nokkrum stöðum og við lékum jafnvægislistir á þeim eins og sirkusfólkið hjá Billy Smart. Enginn hafði dottið ennþá en einn hafði fótbrotnað þegar grjót hrundi úr veggnum í miðri víratínslu.

Sprengjuvírarnir voru allavega á litinn. Gulir, rauðir, grænir, bláir og jafnvel röndóttir. Þeir marglitu voru jafnan bestir. Sá guli og græni samt langbestur. Sverari en hinir. Eins og gullþráður í hendi okkar gríslinganna sem klipptum hann niður í hæfilega stubba og beygðum í löguleg lykkjuskot. Teygjubyssurnar sjálfar voru gerðar úr herðatrjám og lagaðar til af kúnstarinnar reglum. Einlitu vírarnir notaðir til þess að vefja utan um skeftið og skreyta það í öllum litbrigðum. Rauðu teygjurnar frá Matta í Bókabúðinni seldust eins og heitar lummur. Níðsterkar. Því fleiri, því betri og því lengra drifu skotin.

Ljósastaurarnir í hverfinu voru ekki ósvipaðir drumbunum sem lágu yfir dalskorninginn. Ekki alveg eins þykkir og nánast tjörulausir. Ljósakrónan eins og pottahlemmur og peran algerlega óvarin. Ómótstæðilegt skotmark. Örugglega hundrað kerta. Kannski áttatíu. Okkur fannst þær skyggja á stjörnurnar á himninum, sem skinu skært á dimmum vetrarkvöldum. Ég átti mínar uppáhalds stjörnur. Þrjár stjörnur í næstum línulegri röð, skáhallt. Öðrum fannst stjörnuþyrpingin sem myndaði stafinn P flottust. Lögðumst á bakið í snævi þöktum skrúðgarðinum, bjuggum til engla og horfðum hugfangnir á himingeiminn og óravíddir hans í rökkrinu.

Hann ýtti við mér í miðjum draumi. Veiðihúsið í Miðfirðinum hafði góð áhrif á mig og umvafði mig hlýju. Ljósmengunin í lágmarki og næturhimininn stjörnubjartur. Hroturnar í mér höfðu vakið herbergisfélagann af værum blundi. Eitthvað alveg nýtt að sögn. Ég ræskti mig og leit út um gluggann. Við mér blasti fögur sjón, nánast eins og úr skrúðgarðinum. Stjörnurnar svo nálægt að mér fannst ég geta snert þær. Teygt mig í þyrpingarnar sem ég hafði aldrei augum litið áður. Sýnin var myndræn og skýr. Greyptist í hugann.