Stikur ráðherrans

Það er ekki einungis að ég sé bjartsýnn maður að eðlisfari heldur og tel ég mig vera Íslandsmeistara í þolinmæði. Í karlaflokki. Það er ákaflega fátt sem slær mig út af laginu, ef eitthvað. Ég á mjög auðvelt með að umbera flesta hluti og þolmörk mín eru óvenju teygjanleg. Ekki ólíkt augnlokunum sem ég þurfti að láta stytta, upp úr þrítugu. Allsendis ekki ófrægari maður sem sá um þá aðgerð en sjálfur lýtalæknirinn sem pundaði gölluðu brjóstapúðunum í stelpurnar um árið. Spurði mig í deyfingunni hvort ég vildi ekki líka létta á augnpokunum undir augunum en deyfilyfin leyfðu mér bara að tala um körfubolta og stöðuna í deildinni þá stundina. Síðan man ég ekki meir.

Biðin eftir úrræðum í þjóðmálunum hefur verið mér hugleikin að undanförnu eins og hjá flestum. Hundrað daga aðferðarfræði síðustu ríkisstjórnar dugði ágætlega en ekki nánda nærri vel. Alltof langt á milli hugmyndafræði flokkanna til þess að lifa af í nútíma samfélagi. Biðtíminn í dag er miklu styttri en áður. Við lifum ekki lengur á úrræðum með langdregnum lausnum. Við lærðum það í góðærinu, að lifa frekar hratt og erum ekki reiðubúin til þess að tyrfa moldarkofana líkt og forfeður okkar gerðu áður fyrr. Jafnvel þó að góðir hlutir eigi að gerast hægt, þá eru margir orðnir langeygir eftir súrefni enda bæði sparifé og eigið fé uppurið í verðbólgunni. Við höfum velflest þraukað af þolinmæði en nú er komið nóg.

Ég hef óbilandi trú á stjórnvöldum sem nú taka við. Innra með mér blundar vellíðan yfir ferskleika og ungdómi. Held að það sé gott að hafa ekki gamlar tuggur sem reifa enn eldri bragi innundir hjá framkvæmdarvaldinu. Ungt og ferskt fólk sem kemur með nýja sýn og nálgun á viðfangsefnum hvers málaflokks fyrir sig. Ég hlakka til að fylgjast með þeim finna rétta farveginn fyrir fólkið í landinu og síðast en ekki síst fyrir okkur Suðurnesjamenn. Tendra ljósin í tækifærunum sem liggja hér umvörpum í flestum geirum atvinnulífsins.

Mér er því ljúft og skylt að minnast á nýja ráðherrann í ríkisstjórn Íslands, ættaðan af Suðurnesjum. Traustsins verð og sannarlega verðugur fulltrúi okkar allra. Ég bind miklar vonir við að hún komi málefnum svæðisins á rekspöl með fulltingi bæjarfulltrúa allra sveitarfélaga á Suðurnesjum. Við verðum líka öll að hlúa að henni í verkefnunum framundan og sýna henni fullt traust á vegferðinni til framfara. Stikurnar munu án efa vísa henni veginn.