Stigið í vænginn

Hann vaknaði við kunnuglegt lag á Bylgjunni. Á ókunnum stað. Raggi Bjarna og Jón Jónsson sungu Geira Sæm lagið „Froðan“ af einstakri hljómþýðu. Við hlið hans lá kona sem hann hafði hitt fyrr um kvöldið. Naktir líkamar þeirra lágu saman umvafðir röndóttum sængurverum. Ekki beint ósýnilega gyðjan eins og laglínan úr viðtækinu. Þau höfðu hist í Stapanum og látið vel að hvort öðru. Dansað saman inn í nóttina. Í hópi kunningja og vina. Allir voru að skemmta sér. Þau stigu í vænginn hjá hvoru öðru

Hún var fráskilin fjögurra barna móðir. Eiginmaðurinn fyrrverandi hafði flust búferlum í leit að ævintýrum. Atvinnutækifærin í Noregi toguðu í hann eins og svo marga aðra iðnaðarmenn. Henni leiddist einveran og ákvað að fara með vinkonunum á ballið. Þráði að vera ein af stelpunum, jafnvel þó henni hafi gengið illa að koma því fyrir á undanförnum árum. Átti erfitt með að fá barnapíu sem hægt var að treysta á. Oftar en ekki hafði hún þurft að fara fyrr heim, þar sem heimilið hafði verið undirlagt af unglingum sem hópast höfðu í partíið hjá heimasætunni. Óvarin fyrir undirheimum og óþjóðalýð. Skeyttu engu um börnin, sem voru henni allt. Lífsins ljós. Afi og amma fóru blessunarlega með þau í sveitina að þessu sinni. Henni létti að vita af þeim í öruggum höndum.

Hafði séð hann endrum og eins í samkvæmum og fannst nærvera hans góð. Þekkti hann af góðu einu. Þau ræddu heima og geima og áhugamál hvors annars. Börnin komu oftar en ekki við sögu í samræðunum. Ræddu skólann og íþróttirnar. Henni fannst gott að fá athyglina frá honum enda engir  aðrir litið við henni frá skilnaðinum. Hún hafði gefið sig alla að uppeldi barnanna og tileinkað lífið fjölskyldunni. Henni leið þó ekki vel innra með sér og depurðin ruglaði hana í ríminu. Hún bauð honum heim. Eitt glas.

Það hvarflaði ekki að henni að þetta færi svona. Hún vaknaði óróleg um morguninn og sá að hann var farinn. Það síðasta sem hún mundi, var að hún lá í örmum hans og fékk koss á ennið. Umvafin hlýju og mýkt. Anganin hans lagði enn um herbergið. Þá rann það upp fyrir henni hvað hafði gerst. Engu að síður nagaði samviskan hana og hún grúfði sig í koddann. Hét því að láta slíkt ekki henda sig aftur. Aldrei.