Steinn yfir steini

Það eru myndarlegar steinhleðslur að myndast við lífæðarnar út úr Reykjanesbæ þessa dagana. Mér verður hugsað til Páls gamla, sem bjó í næsta húsi við æskustöðvarnar mínar og móðir mín sagði mér að hefði verið einn af steinsmiðunum sem hjó til grjótið í steinhleðsluna við Fischersbryggju, síðar nefnda Miðbryggju við rætur Hafnargötunnar. Krumlurnar á gamla manninum voru víst engin smásmíði og því til staðfestu sýndi hún mér giftingarhringinn hans, sem hún erfði eftir hans dag. Hún hafði annast hann af alúð á sínum unglingsárum. Sverari hring hef ég aldrei séð. Ég mun eflaust minnast gamla mannsins með hrammanna þegar ég þarf að djöflast með skófluna í gegnum snjóskaflana þarna á leið til vinnu á komandi vetrum.

Ég efast þó ekki um að það verði nokkuð greiðfært um nýju „göngin“ okkar þegar við blásum til hátíðar á haustdögum. Væntanlega allt hlaðið og tyrft fyrir þann tíma. En það er ekki bara steinsmiðir að störfum hérna í bæjarfélaginu, því samkvæmt nýjustu fréttum hafa meðbræður þeirra í Kína verið uppteknir af því að höggva til nýjasta listaverkið í bæjarfélaginu, sem afhjúpað verður á Ljósanótt.  Parísartorg með tilhöggnum og afundnum Eiffelturni verður enn eitt merkið um tilurð og vegsemd steinsmiða eða steinhöggvara. Hönnuðurinn Stefán Geir Karlsson, ættaður úr Keflavík, er ekki óvanur að skilja eftir sig listaverk á svæðinu, því risastóra olíutrektin við höfuðstöðvar Steina í Olís er vitnisburður um listfengi drengsins á Ísbarnum. Öllu skemmtilegra hefði verið að sjá einhvern heimamanninn glíma við snúninginn á turninum en hver segir að rauði símaklefinn á Lundúnatorgi við löggustöðina sé annað en bresk málmsmíði?

Og af því ég minntist á gamla manninn hér áður, þá blundar í mér óhugur um samskipti bæjarfélaganna á Suðurnesjum um málefni gamla fólksins þessa dagana. Ríkið hefur með hárbeittum  niðurskurðarhníf og rökstuddum fjárhagslegum meðferðarúrræðum ákveðið að Garðvangur sé með öllu dæmdur til þess að leggjast í eyði. Eðlilegast sé að færa rekstur þeirrar einingar yfir á Nesvelli, enda fjármagnið á leiðinni þangað. Ekki eigulegt ástand að stía sundur samvinnunni, sem við eigum að standa vörð um, ef einhvern tímann á að stefna að sameiningu í framtíðinni.

Samningaumleitanir virðast heldur ekki hafa verið ofarlega á blaði þegar starfsumhverfi tuga manna var stefnt í hættu. Samstaðan hefði átt að leita frekari leiða. Með grjóthörðu lýðræði og þingmannaskjöldum. Það er einlæg ósk mín að lítilmagninn njóti vafans og við beitum okkur fyrir betri lausnum. Annars stendur ekki steinn yfir steini.