Puttar í púðri

Blysin voru af öllum stærðum og gerðum. Rakettur í öllum regnbogans litum. Jókerinn fannst mér flottastur. Við strákarnir vorum á kafi í þessu. Gleymdum okkur í nýju jólapeysunum, sem komu upp úr jólapökkunum dagana á undan. Ýmist í þeirri rauðu frá ömmu eða þeirri köflóttu frá Soffu frænku. Ullin alltaf hlý og góð. Áttum að passa okkur á því að fá ekki neista úr stjörnublysunum á okkur. Rokeldspýturnar gátu líka verið hættulegar. Hugfangnir gleymdum við okkur stundum. Eitt og eitt gat kom á peysurnar í öllum æsingnum. Reyndum að fela þau sem best við gátum.

Björgunarsveitin Stakkur hélt úti sölu hér og þar um bæinn. Við flökkuðum á milli staða og keyptum eina og eina í einu. Drýgðum aurinn og teygðum á deginum. Söfnuðumst saman í skrúðgarðinum eða á Félagsbíóplaninu og skutum upp með viðhöfn. Öllum fannst sín vera flottust. Eða háværust. Sumir áttu bara til fyrir ýlum. Þær voru þó yfirleitt margar í pakka, þannig að ýlukóngarnir voru lengur að skjóta heldur en þeir sem keyptu stóra rakettu eða jókerblys. Svo var líka hægt að halda á ýlunum og skjóta þeim úr höndunum. Stranglega bannað en við vorum með góða vettlinga. Stundum svolítið svartir af sóti í lok dags. Nudduðum og þvoðum þá upp úr blautum snjónum svo að mömmurnar yrðu ekki brjálaðar.

Sprengjusérfræðingar götunnar komust á snoðir um nýja tegund skotelda, sem hægt var að brjóta upp og eiga þannig fleiri sprengjur í vasanum yfir daginn. Litlir hólkar á stærð við þumal litu dagsins ljós í uppskurðinum. Púður á milli þeirra sem hægt var að safna saman í krukku og eiga til betri tíma. Langbest að kaupa svarta þéttilímrúllu og vefja henni utan um hólkinn til þess að magna kraftinn. Ofan á var afklippt rokeldspýta notuð sem kveikiþráður. Vafinn þétt og kyrfilega að endingu. Vopnabúrið í nýjum víddum. Hávaðinn svakalegur. Féll um sjálft sig þegar einn okkar var ekki nógu fljótur að kasta sprengjunni frá sér. Puttunum fækkaði í hópnum og heyrnin skánaði í kjölfarið.

Urðum að finna upp nýja og öruggari leið. Áttum mikið af þéttilímrúllum. Við lögðumst yfir málið. Sprengjan mátti aldrei vera þannig útbúin að hætta væri á að hún springi í höndunum. Eldspýtnastokkur, fullur af afklipptum eldspýtum og brennisteinsblaðinu utan af honum snúið inn á við, þéttilímið vafið utan um og núningurinn við höggið sá um afganginn, þegar kastað var í vegg. Forvörn Tuma þumals svínvirkaði.