Öryggið á oddinn

Hátt og skerandi öskur rauf morgunkyrrðina. Hundarnir hrukku í kút og gerðu það sem þeim er eðlislægt, að verja heimilið með gelti. Alla vega annar þeirra. Hinn hélt áfram að sofa eins og ekkert hefði í skorist. Við hjónin litum hvort á annað og síðan á klukkuna. Hvað var þetta? Úti fyrir lá hauströkkrið yfir hlíðinni og enn var um klukkustund í að morgunskíman smeygði sér inn um gluggana. Ég sneri mér á hina hliðina og hugsaði með mér að þetta hlyti að hafa verið einkennilegur draumur. Þá heyrðist það aftur. Kröftugt og krassandi. Karlmannsöskur af verstu gerð. Hvað er eiginlega um að vera í friðsældinni? Ég bölvaði í hljóði yfir þessu ómerkilega en ógnvekjandi áreiti.

Morgnarnir mínir eru friðhelgir. Þinglýstir hjá sýslumanninum í Keflavík. Mig langaði mest til þess að teygja mig í símann og hringja í embættismanninn. Biðja hann um að fletta þessu ákvæði upp. Samningar eiga að standa. En svo vita ekki allir af því. Taka ekkert tillit til þess að friðelskandi fólk vill að öllu jöfnu fá sinn nætursvefn. Átta tímar til eða frá. Á afskaplega auðvelt með að sofna aftur ef sá tími er rofinn. Gerist afar sjaldan en stundum þó. Einkum ef ég leggst til hvílu með eitthvað óafgreitt í farteskinu. Toppstykkið heldur nefnilega áfram að vinna og ef það finnur lausnina í draumaheimum, þá á það til að ýta við mér.

Ólætin héldu áfram úti fyrir og greinilegt var að það voru óafgreidd mál í meðförum á víðavangi. Það þurfti meira en nætursvefn til þess að útkljá þau. Bölvið og  ragnið  færðist blessunarlega fjær en var samt sem áður greinilegt. Blótsyrðin eins og enginn væri morgundagurinn. Ég færði mig nær glugganum og opnaði til þess að heyra betur. Nú var orðaflaumurinn orðinn að skerandi ópum og nagandi sársaukinn kvaldi auðheyrilega einn hinna ólánssömu. Í móanum okkar, þar sem vorboðinn ljúfi hafði kvakað sumarlangt. Óttaslegin hringdum við í lögregluna.

Það leið ekki á löngu þar til tignarlegur laganna vörður var mættur á svæðið. Óttalaus og fagmannlegur. Öryggiskenndin umlukti heimilið að nýju enda óð hann fumlaus inn í myrkrið með vasaljós í hendi. Óvættirnar voru auðsjáanlega á bak og burt. Sáum mest eftir því að hafa ekki hringt örlítið fyrr. Skýrslan gefin á náttfötunum. Með úfið hár og stírur í augum. Guði sé lof fyrir Sigríði og hennar vösku sveit. Morgunsopinn sterkari en vanalega.